Viðskipti innlent

Útlitið dekkra en áður talið

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir

skrifar

Örlítið meiri svartsýni gætir í endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins en áður. Ekki er tekið tillit til hugsanlegs samdráttar í kvótaúthlutunum. Ef af honum verður má gera ráð fyrir enn dekkri tölum.

Gert er ráð fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði neikvæður um 0,1 prósent, þrátt fyrir stóraukinn útflutning áls. Á árinu 2008 muni áframhaldandi bati í utanríkisviðskiptum og samdráttur í þjóðarútgjöldum skila tveggja prósenta hagvexti. Árið 2009, þegar þjóðarútgjöld hætti að dragast saman, verði hagvöxtur orðinn 2,1 prósent. „Þessi spá er ekki ólík hagspá okkar frá því fyrr í mánuðinum,“ segir Lúðvík Elíasson, sérfræðingur hjá greiningardeild Landsbankans.

„Hún er hins vegar töluvert langt frá nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar var gert ráð fyrir tveggja til þriggja prósenta hagvexti nú í ár. Þeir virðast hafa haldið að meiri kraftur væri í innlendri eftirspurn en nýjustu hagtölur benda til.“

Búist er við að viðskiptahalli dragist hratt saman í ár og verði sextán prósent af landsframleiðslu vegna viðsnúnings í vöruviðskiptum. Árið 2008 er reiknað með að hallinn verði kominn niður í 10,2 prósent og átta prósent árið 2009.

Í spánni kemur fram að skýr merki séu um að ójafnvægi í hagkerfinu sé að minnka. Þrátt fyrir að búist sé við minni hagvexti og meira atvinnuleysi er gert ráð fyrir meiri verðbólgu en í fyrri spá. Búist er við að verðbólga á þessu ári verði 3,7 prósent að meðaltali í ár, komist á 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands í lok ársins og verði nálægt því markmiði árin 2008 og 2009. Atvinnuleysi, sem var 1,3 prósent af vinnuafli árið 2006, muni hækka í 1,6 prósent í ár. Þá er búist við því að atvinnuleysið verði 3,9 prósent á næsta ári og 4,5 prósent árið 2008. Svo hátt atvinnuleysi hefur ekki mælst hér á landi frá því árið 1995 þegar það fór upp í fimm prósent.

Lúðvík segir tölur um verðbólgu og atvinnuleysi koma nokkuð á óvart. „Flestir eru sammála um að það sé enn töluverð spenna í hagkerfinu og það hafi vaxið umfram getu. Þess vegna ætti að vera eðlilegt að nokkur ár með lágum hagvexti bættust við án þess að það hefði mikil áhrif á undirliggjandi hagstærðir, það er atvinnuleysi og verðbólgu. Meiri slaki í hagkerfinu, sterkara gengi og meira atvinnuleysi heldur en í fyrri spá ráðuneytisins ætti allt að leiða til minni verðbólgu. Engu að síður er verið að hækka spána fyrir öll árin. Það bendir til þess að gert sé ráð fyrir vaxandi launaþrýstingi þrátt fyrir vaxandi atvinnuleysi. Það er frekar óvenjulegt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×