Viðskipti innlent

Sjálfstætt viðskiptaráðuneyti

Hornsteinn sjálfstæðis þjóðar eru auðlindir hennar, áþreifanlegar og óáþreifanlegar. Íslendingar endurheimtu sjálfstæði sitt 1944 og kraftmiklar frumframleiðslugreinar, eins og sjávarútvegur og iðnaður á fyrstu áratugum sjálfstæðrar þjóðar tryggðu henni fjárhagslegt öryggi. Ísland var frumvinnsluþjóðfélag allt fram undir síðustu áratugi 20. aldar. Skipting ráðuneyta endurspeglaði þann veruleika.

Síðan þá og sérstaklega á síðustu tíu árum hafa orðið umskipti og nú eru það þjónustugreinarnar sem hafa tekið við af frumvinnslugreinunum sem megin drifkraftur íslensks samfélags. Lífsgæðin á Íslandi og styrkur sjálfstæðs ríkis eiga í dag mest undir þeim óáþreifanlegu verðmætum sem felast í nýtingu þekkingar.

Ný ríkisstjórn skynjar þessar breytingar og hefur með stofnun sérstaks viðskiptaráðuneytis sýnt í verki vilja sinn til að efla enn frekar umgjörð þjónustugreina og auka þannig tækifæri þeirra til að vaxa og dafna.

Nú liggur fyrir að sjávargullið, þorskstofninn, er í sögulegu lágmarki og hefur hallað jafnt og þétt undan síðasta áratug vegna ofveiði. Sjávarútvegur lagði fram nærri tvöfalt meir til landsframleiðslu en fjármálastarfsemi fyrir tíu árum. Þetta er nú breytt. Fjármálafyrirtæki landsins hafa á áratug leitt umbreytingu í atvinnulífi þjóðarinnar og átt stóran þátt í að lífskjör á Íslandi hafa batnað stöðugt þrátt fyrir minnkandi veiði og eru lífskjör hér nú með þeim bestu sem þekkjast í heiminum.

Það sem mestu hefur skipt í þeirri umbreytingu sem orðið hefur á skömmum tíma er annars vegar gott starfsumhverfi sem stjórnvöld hafa skapað og hins vegar hátt menntunarstig þjóðarinnar. Það eru þessir tveir þættir sem munu áfram skipta mestu. Undir lok síðasta árs kynnti forsætisráðherra skýrslu um alþjóðlegt fjármálaumhverfi á Íslandi. Að baki henni lá mikil vinna og í skýrslunni eru kynntar ýmsar hugmyndir um hvað megi gera til þess að það verði enn eftirsóknarverðara að stunda fjármálaviðskipti gegnum Ísland. Írar rifu sig upp af tossabekk Evrópuþjóða í fremstu röð á tuttugu árum með slíkum hætti. Íslenskur fjármálageiri hefur náð langt á skömmum tíma og nú er lag fyrir stjórnvöld að leggja fram viðbótar krafta til að hjálpa honum að ná í fremstu röð. Framboð menntunar hefur margfaldast á Íslandi á skömmum tíma. Sú þróun þarf að halda áfram í bland við það að Íslendingar sæki sér þekkingu og reynslu af öðrum menningarsvæðum.

Þetta kann að hljóma sem fjarlægur draumur. En fáir sáu fyrir þá miklu byltingu sem orðið hefur á íslenskum fjármálamarkaði. Hvern hefði til dæmis órað fyrir því að íslenskir bankar kæmust í hóp tíu stærstu banka á Norðurlöndunum og íslensk smásöluþjónustufyrirtæki yrðu með þeim umsvifamestu í hinu Stóra Bretlandi. Það er nefnilega þannig að orð eru til alls fyrst, hugmyndir sem færðar eru í orð og síðan framkvæmdar. Breytingar í alþjóðlegu umhverfi sem íslenskt þjóðfélag er vissulega hluti af, eru svo örar að annað hvort tekur maður þátt í breytingum, reynir að nýta þær sér til góðs, eða maður verður fórnarlamb þeirra. Miklu skiptir að umgjörðin, þ.á.m. uppstilling ráðuneyta, taki mið af því svo góður grunnur sé til að tryggja þjóðinni hagsæld og framfarir.

Fjármálageirinn á Íslandi hefur á skömmum tíma vaxið í að verða ein kraftmesta atvinnugrein landsins. Ef skattgreiðslur eru notaðar sem viðmiðun má glöggt sjá að fjármálafyrirtæki greiða nú hátt í helming af tekjuskattsgreiðslu fyrirtækja á Íslandi. Starfsfólki fjármálafyrirtækja fjölgar dag frá degi, ungt vel menntað fólk úr öllum áttum fær vinnu við hæfi og launakjör eru góð. Um 8300 manns störfuðu hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum í lok síðasta árs. Ef litið er til framlags fjármálageirans til landsframleiðslu hjá einstökum þjóðum er Ísland á hraðbyri upp töfluna yfir þau ríki þar sem það hlutfall er hæst. Ef vel er haldið á málum hérlendis á komandi misserum er þess væntanlega ekki langt að bíða að Ísland verði orðið jafnsett þeim ríkjum sem lengsta hefð eiga í þessum efnum.

Framlag fjármálageirans til landsframleiðslu

Efling fjármálageirans skilar sér til annarra sviða þjóðfélagsins. Þannig eiga flest þau íslensku fyrirtæki sem nú eru stórir leikendur á sínum markaði úti í hinum stóra heimi, svo sem í smásölu, matvælaframleiðslu, stoðtækja- og lyfjagerð vegsauka sinn ekki síst að þakka kröftugum innlendum fjármálafyrirtækjum sem höfðu trú á stórhuga hugmyndum íslenskra frumkvöðla. Þannig hefur fjölbreytni íslensks atvinnulífs aukist verulega og aukin breidd styrkt íslenskt þjóðarbú til að mæta óvæntum áföllum á afmörkuðum sviðum.



Samtök fjármálafyrirtækja óska nýjum viðskiptaráðherra velfarnaðar gagnvart þeim mikilvægu verkefnum sem bíða hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×