Viðskipti innlent

Krónan helst sterk þrátt fyrir veikingu

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar
„Við gætum séð sveiflur og meiri veikingu á næstu dögum en ég held samt að krónan haldist sterk áfram út sumarið,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Glitni.
„Við gætum séð sveiflur og meiri veikingu á næstu dögum en ég held samt að krónan haldist sterk áfram út sumarið,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Glitni.

Krónan veiktist um tæp tvö prósent í fyrradag og hafði veikst um eitt prósent eftir hádegi í gær. Veiking krónunnar er rakin til þess að Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að þorskafli næsta fiskveiðiárs verði takmarkaður við 130 þúsund tonn. Aflinn á þessu fiskveiðiári er 193 þúsund tonn.

Gengi íslensku krónunnar veiktist töluvert í kjölfar fregnanna og fór úr 112 stigum í 114,6 stig í fyrradag. Hlutabréfamarkaðurinn lækkaði einnig lítillega, um 0,6 prósentustig. Gengislækkunin er talin hafa haft þar áhrif en þó hafa markaðir í Evrópu einni verið að lækka, eftir því sem fram kom í Hálffimmfréttum Kaupþings.

Sjávarútvegsráðherra situr þessa dagana á rökstólum með aðilum fiskiðnaðarins og hagsmunahópa til að reyna að ná samkomulagi. Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir að farið verði bil beggja milli þess sem aflamarkið segir til um og þess sem Hafrannsóknastofnun leggur til og samdrátturinn verði um tuttugu prósent. Ef það gengur eftir fer aflamarkið úr 193 þúsund tonnum í 155 þúsund tonn.

Ragnhildur Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Greiningu Glitnis, segir að gengi krónunnar sé ennþá sterkt og ekki þurfi að leita lengra aftur en um miðjan maí, þá hafi vísitölugildið verið svipað og nú. Ragnhildur taldi að tölur um viðskiptajöfnuð, sem Seðlabankinn birti síðdegis í gær, gætu haft einhver áhrif til lækkunar gengisins.

„Við gætum séð sveiflur og meiri veikingu á næstu dögum en ég held samt að krónan haldist sterk áfram út sumarið og fram á haustið. Við gætum séð snarpa lækkun í haust þegar Seðlabankinn fer að lækka stýrivextina og áhugi á vaxtamunarviðskiptum minnkar hjá erlendum aðilum. Veikingin í gær og fyrradag gæti líka verið vegna þess að erlendir fjárfestar hafi verið að innleysa hagnað,“ segir hún.

Í Vegvísi Landsbankans kom fram að yrði farið að tillögum Hafrannsóknastofnunar gæti það haft veruleg áhrif á næsta ári þar sem mikill niðurskurður á aflaheimildum hefði umtalsverð áhrif á hagvöxtum auk þess sem það myndi setja mark sitt á afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þó þætti ólíklegt að sjávarútvegsráðherra fylgdi ráðleggingum fiskifræðinganna til hins ítrasta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×