Viðskipti innlent

Vanskil hafa aukist

Jónas Fr. Jónsson
Jónas Fr. Jónsson

Vanskil fyrirtækja eru nú hærri en verið hefur frá miðju ári 2005. Þetta sýnir ný samantekt Fjármálaeftirlitsins á tölum um vanskil útlána hjá innlánsstofnunum miðað við lok mars 2007. Vanskilin eru þó mun lægri en þau voru á árunum 2000 til þess tíma.

Vanskilahlutfall fyrirtækja er 0,8 prósent í lok 1. ársfjórðungs 2007 samanborið við tæplega 0,5 prósent í árslok 2006. Þegar hlutföllin eru mæld með eins árs tímatöf kemur í ljós að þau eru eitt prósent samanborið við 0,7 prósent í árslok 2006. Með eins árs tímatöf er átt við að vanskilin eru sett fram sem hlutfall af útlánastofninum árið á undan. Miðað við tveggja ára tímatöf eru vanskilin 1,8 prósent samanborið við tæplega 1,2 prósent í árslok 2006.

Með því að skoða vanskil með eins og tveggja ára tímatöf má sjá hvort undirliggjandi vöxtur hafi verið í vanskilum. Til að mynda ef mikil útlánaaukning hefur verið eru í stofninum nýveitt útlán sem ekki er farið að reyna á. Með því að setja nýleg vanskil í hlutfall við stóran stofn, sem að hluta til eru ný útlán, getur því hlutfallið lækkað, jafnvel þótt vanskilin gætu verið að aukast.

Vanskilahlutfall einstaklinga er rúmlega 0,8 prósent í lok 1. ársjórðungs sem er lítillega hærra en í árslok 2006. Á sama mælikvarða hafa vanskilahlutföll einstaklinga miðað við eins og tveggja ára tímatöf eitt prósent og 1,6 prósent samanborið við 1,1 og 1,8 prósent í árslok 2006. Vanskil einstaklinga eru nánast óbreytt frá árslokum 2006. Þau hafa ekki verið lægri á því sex ára tímabili sem samanburðurinn nær yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×