Viðskipti innlent

Verðum hluti af leiðandi kauphöll

Opnað fyrir viðskipti í sameinaðri kauphöll í apríl. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir Kauphöll Íslands hafa sameinast OMX á hárréttum tíma. Ef af henni hefði ekki orðið væri hætta á að kauphöllin hefði setið eftir við sameiningu Nasdaq og OMX.
Opnað fyrir viðskipti í sameinaðri kauphöll í apríl. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir Kauphöll Íslands hafa sameinast OMX á hárréttum tíma. Ef af henni hefði ekki orðið væri hætta á að kauphöllin hefði setið eftir við sameiningu Nasdaq og OMX. MYND/Anton

viðskipti Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq gerði í gærmorgun yfirtökutilboð í OMX-samstæðuna, sem rekur kauphallir á Norðurlöndunum, þar á meðal hér, og í Eystrasaltsríkjunum. Stjórnir beggja fyrirtækja hafa samþykkt tilboðið og mæla með því að hluthafar geri það líka. Sameinað fyrirtæki mun heita Nasdaq OMX Group með markaðsvirði að öllu óbreyttu upp á 7,1 milljarð bandaríkjadala, jafnvirði 440,7 milljarða íslenskra króna.

Tilboðið hljóðar upp á 3,7 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði 227,9 milljarða íslenskra króna. Greitt verður með nýjum hlutum í Nasdaq og reiðufé. Kaupverðið nemur 208,1 sænskri krónu á hlut sem er 19 prósentum yfir lokagengi bréfa í OMX á miðvikudag.

Gert er ráð fyrir að samruna fyrirtækjanna ljúki á síðasta fjórðungi þessa árs. Robert Greifeld, forstjóri Nasdaq, verður forstjóri samstæðunnar en Magnus Böcker, núverandi forstjóri OMX AB, verður stjórnarformaður sameinaðs félags.

OMX keypti Kauphöll Íslands síðasta haust og tók við rekstrinum í desember. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir samruna kauphallanna hafa verið á háréttum tíma. „Þetta er fagnaðarefni. Hefðum við ekki sameinast OMX á sínum tíma er hætta á að við hefðum setið eftir í samrunanum. Tímasetningin var því afar góð. Nú erum við að taka skrefið lengra og verða hluti af leiðandi kauphöll með sterka stöðu beggja vegna Atlantshafsins. Sýnileiki fyrirtækja sem skráð eru hér og aðgangur fjárfesta kemur til með að batna enn frekar," segir hann og bendir á að einungis Kauphöllin í New York í Bandaríkjunum, sem hefur sameinast samevrópska hlutabréfamarkaðnum Euronext, hafi svipaða stöðu.

Þórður segir samrunann geta haft jákvæð áhrif á starfsemi kauphallarinnar hér. „Það hefur verið í skoðun hjá OMX-samstæðunni að nýta hagkvæmt skattaumhverfi hér á landi. Það getur leitt til þess að einhverjir starfshættir verði efldir hér á landi fremur en dregið úr þeim á næstu misserum," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×