Viðskipti innlent

Stefnt að tvöföldun Refresco á einu ári

Eftir að Refresco Holding, annar stærsti drykkjavöruframleiðandi Evrópu, festi kaup á Nuits Saint-Georges (NSG) í Frakklandi á dögunum hefur fyrirtækið tvöfaldast á einu ári. En þar með er ekki sagan öll:

„Við ætlum að halda áfram á þessari braut og horfum til tvöföldunar á næstu tólf mánuðum. Ég myndi telja það næsta víst að það takist,“ segir Hannes Smárason, forstjóri FL. Félagið leiddi fjárfestahóp er stóð að yfirtökunni á Refresco í apríl í fyrra.

Þetta er fjórða yfirtaka hollenska fyrirtækisins á aðeins fjórum mánuðum en áður hafði það eignast Kentpol í Póllandi, Histogram í Bretlandi og Sun Beverages Company (SBC) í Frakklandi og Niðurlöndum.

Að sögn Hannesar fer heildarvelta Refresco í 1,1 milljarð evra, um 93 milljarða króna, eftir kaupin á NSG en ef áform stjórnenda um áframhaldandi vöxt ganga eftir verður veltan komin yfir 180 milljarða.

Reiknað er með að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði um 110 milljónir evra á næstu tólf mánuðum, sem jafngilda 9,3 milljörðum króna.

Stjórnendur FL Group hafa bent á að tvennt kunni að hafa aukið verðmæti Refresco-hlutarins sem er bókfærður á upphaflegu kaupvirði, um fimm milljarðar króna.

Þegar kaupin fóru fram greiddi fjárfestahópurinn um sjöfalda EBITDA fyrir Refresco en nú hefur rekstrarhagnaður tvöfaldast. Í öðru lagi hafa EBITDA-margfaldarar á drykkjarvörugeiranum farið hækkandi, úr sjö í níu að jafnaði.

Hannes telur að Refresco sé ekkert ósvipað fyrirtæki og Bakkavör. Stærstu viðskiptavinirnir eru sterkar smásölukeðjur á borð við Aldi, Lidl, Tesco og Carrefour. Nú rekur Refresco fimmtán verksmiðjur í átta löndum, þar af tvær í Frakklandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×