Viðskipti innlent

Uppbygging önnur hjá AVS

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs­ráðherra úthlutar úr AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi. Sjóðurinn hefur verið á fjárlögum frá árinu 2004.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs­ráðherra úthlutar úr AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi. Sjóðurinn hefur verið á fjárlögum frá árinu 2004.

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi úthlutaði í byrjun mánaðarins tæplega 238 milljónum króna til sextíu verkefna í sjávarútvegi. Þar af kemur opinbera hlutafélagið Matís að átján verkefnum sem úthlutað fengu 81,6 milljónum króna.

Matís er þar með einn stærsti styrkþegi AVS. Stjórnarformaður Matís er Friðrik Friðriksson, en hann er einnig formaður stjórnar AVS og skrifar sem slíkur undir bréf þar sem styrkbeiðnum er hafnað eða þær samþykktar.

Friðrik segir að þótt þetta kunni við fyrstu sýn að virðast tortryggilegt sé uppbygging sjóðsins með öðrum hætti en menn séu vanir. Sjóðurinn sé nokkurs konar verkefnasjóður sem starfi undir og í umboði sjávarútvegsráðherra.

„Tilgangurinn er að auka hagnýtar rannsóknir í tengslum við greinina,“ segir hann. Uppbygging sjóðsins er svo þannig að sjóðsstjórnin fjallar ekki um einstakar umsóknir heldur leggur stærri línur í skiptingu styrkja milli fagsviða sjávarútvegsins. Fjórir faghópar fara hins vegar yfir umsóknir, meta og gefa einkunnir, en í hópunum er fólk úr geiranum, sumt hvert tengt fyrirtækjum sem sækir um styrki, að sögn Friðriks. „En Matís er náttúrlega stærsta fyrirtækið í greininni og liggur í augum uppi að þaðan koma margar umsóknir í öllum faghópum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×