Viðskipti innlent

Straumur stefnir á 22 milljarða yfirtöku

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir

skrifar

Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hefur keypt 62 prósenta hlut í eQ Corporation, finnskum banka sérhæfðum í eignastýringu, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Í júní verður yfirtökutilboð gert í allt hlutafé og kauprétti bankans sem eftir standa. Mun það hljóða upp á 7,60 evrur á hlut og 5,40 evrur fyrir hvern kauprétt.

Samanlagt virði kaupanna er 260 milljónir evra. Það samsvarar um 22 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar má benda á að markaðsvirði Straums-Burðaráss er um 220 milljarðar íslenskra króna. Bréf eQ hækkuðu um 49 prósent í finnsku kauphöllinni í gær í kjölfar tilkynningarinnar.

Friðrik Jóhannsson, forstjóri Straums-Burðaráss, segist gera ráð fyrir að hluthafar og rétthafar gangi að tilboðinu. „Stjórn eQ hefur farið yfir tilboðið. Hún mælir með því að hluthafar taki því. Allir þeir stærstu hafa þegar selt sín bréf til okkar.“ Þar á meðal eru lykilstjórnendur sem hafa skuldbundið sig til að starfa áfram hjá bankanum.

Kaupin á eQ eru stórt skref í þá átt að gera Straum-Burðarás að alþjóðlegum fjárfestingarbanka eins og stefnt er að. Þá hefur bankinn sérstaklega sett sér það markmið að verða leiðandi norrænn fjárfestingarbanki. Friðrik segir kaupin flýta því ferli. „Við höfum ekki verið með eignastýringu en fáum hana inn í okkar vöru- og þjónustuframboð með þessum kaupum,“ segir Friðrik. „Þá höfum við möguleika á að byggja á starfsemi þeirra á öðrum mörkuðum okkar. Sömuleiðis eru möguleikar á að bjóða þjónustu í Finnlandi sem eQ hefur ekki verið með hingað til.“ Í því samhengi nefnir hann að viðskiptavinum eQ muni bjóðast auknir fjármögnunar­möguleikar í skjóli sterks efnahagsreiknings Straums-Burðaráss.

Á síðasta aðalfundi Straums-Burðaráss gagnrýndi Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnar­formaður Straums-Burðaráss, íslensk stjórnvöld fyrir að þrengja heimildir fjármálafyrirtækja til að gera upp bækur sínar í erlendri mynt. Lét hann í það skína að svo gæti farið að bankinn yrði fluttur úr landi. Eftir kaupin á eQ starfar nú einungis fjórðungur af 320 starfsmönnum Straums-Burðaráss á Íslandi. Þá er útlit fyrir að innan skamms muni áttatíu prósent tekna félagsins koma að utan. Friðrik segir þó engar fyrirætlanir um að flytja höfuðstöðvar bankans frá Íslandi.

„Á Íslandi er nokkuð hagstætt fyrirtækjaumhverfi. Mér hefur fundist góð samstaða um það að vænlegt sé að hafa gott umhverfi fyrir fyrirtæki. Þannig geta þau vaxið og dafnað og boðið fólki upp á spennandi framtíð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×