Viðskipti innlent

Föllum um þrjú sæti

Frosti Ólafsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, Erlendur Hjaltason formaður og Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis.
Frosti Ólafsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, Erlendur Hjaltason formaður og Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis. MYND/GVA

Ísland fellur úr fjórða sæti í það sjöunda í samanburði IMD-viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni þjóða. Viðskiptaráð Íslands og Glitnir kynntu niðurstöður könnunarinnar í gær.

Í könnuninni er metin sam­keppnis­hæfni 55 landa út frá yfir 300 hagvísum og svörum frá áhrifamönnum í viðskiptalífi.

Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs, fór yfir mikilvægi úttektar IMD fyrir íslenskt viðskiptalíf. Hann segir úttektina nýtast við að meta stöðuna og hvort og hvernig skuli brugðist við.

Frosti Ólafsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs sem kynnti niðurstöður könnunarinnar, segir sætafall landsins í raun mega kalla „fórnarkostnað velgengninnar“ því viðskiptahalli, verðbólga og hagstærðir sem komnar séu úr jafnvægi sökum þenslu hafi áhrif á samkeppnishæfnina, þótt landið standi mjög vel á mörgum sviðum.

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, segir fall landsins vissulega vonbrigði. Stærsti vandinn er sagður felast í skorti á samstilltum aðgerðum hins opinbera sem stutt gætu peningamálastefnu Seðlabankans, en hann hafi einn verið látinn bera ábyrgð á því að slá á þenslu. Þá segir Ingólfur ljóst að krónan vegi einnig þungt sem samkeppnishindrun, enda fæli hún fjárfestingu frá landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×