Sport

Sagt að vitna gegn Lance

Margoft verið reynt að klína á hann ýmsu án árangurs.
Margoft verið reynt að klína á hann ýmsu án árangurs. MYND/Getty

Floyd Landis greindi frá því í gær að honum hefði verið boðinn mildari dómur í lyfjamáli sínu ef hann myndi gefa saknæman vitnisburð um hjólreiðagoðsögnina Lance Armstrong.

Landis vann Tour de France hjólreiðakeppnina árið 2006 en var sviptur titlinum þegar hann féll á lyfjaprófi. Landis heldur því fram að honum hafi verið boðinn stystimögulegi dómur ef hann myndi gefa vitnisburð sem kæmi Armstrong mjög illa.

„Þetta tilboð var svo glórulaust að það þurfti ekki að svara því,“ sagði Landis. „Ég gerði ekki það sem ég er sakaður um og ekkert af þessu snertir Lance.“

Travis Tygart hjá lyfjaeftirlitinu er maðurinn sem Landis segir hafa lagt fram boðið. Hann segist ekki geta tjáð sig um málið samkvæmt reglum lyfjaeftirlitsins. Landis þarf að gefa þeim leyfi til að tjá sig og Tygart segist vera til í það með leyfi Landis.

Armstrong og Landis eru fyrrum félagar en vinskapur þeirra fór út um þúfur árið 2004. Engu að síður hefur Armstrong staðið með Landis í þeirri orrahríð sem hann stendur í og Landis virðist vera að endurgjalda greiðann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×