Viðskipti erlent

Svik í stærstu yfirtökunni

Umhverfissinnar mótmæla TXU Maður hefur verið kærður vegna innherjasvika í tengslum við stærstu skuldsettu yfirtöku á fyrirtæki í heimi.
Umhverfissinnar mótmæla TXU Maður hefur verið kærður vegna innherjasvika í tengslum við stærstu skuldsettu yfirtöku á fyrirtæki í heimi.

Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna hefur höfðað mál á hendur starfsmanni svissneska fjárfestingabankans Credit Suisse í Bandaríkjunum vegna innherjasvika í tengslum við yfirtöku fjárfestingafélagsins Kohlberg Kravis Roberts á bandaríska orkufyrirtækinu TXU fyrr á þessu ári. Kaupvirði nam 45 milljörðum bandaríkjadala, tæpum 2.900 milljörðum íslenskra króna. Þetta er einhver stærsta skuldsetta yfirtaka í heimi.

Credit Suisse veitti ráðgjöf vegna viðskiptanna og mun maðurinn hafa nýtt sér innherjaupplýsingar í hlutabréfaviðskipti með bréf í félaginu.

Maðurinn, sem er 37 ára og af pakistönskum uppruna, hafði samband við annan aðila í heimalandinu og festu þeir sér 6.700 framvirka hluti í TXU í febrúar. Gengið hækkaði um 13 prósent við yfirtökuna og nam hagnaðurinn 7,5 milljónum dala, um 480 milljónum króna.

Sami maður liggur nú undir grun um að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar í níu öðrum yfirtökum á fyrirtækjum sem Credit Suisse veitti ráðgjöf um. Verði maðurinn fundinn sekur á hann yfir höfði sér sekt upp á fimm milljónir dala hið minnsta, um 320 milljónir íslenskra króna, og 20 ára fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×