Viðskipti innlent

Ærin verkefni kalla á ný tök

Gera má ráð fyrir því að síðar í þessum mánuði taki við ný ríkis­stjórn studd nýjum meirihluta á Alþingi. Mörg ný andlit verða þar á meðal ef að líkum lætur. Verkefnin framundan eru ærin og kalla á ný tök á málum. Efnahagurinn

Í nýrri skýrslu ASÍ kemur fram það álit samtakanna að hagkerfið leiti nú í átt til jafnvægis. ASÍ telur að þó að hægi á í efnahagslífinu sé ekki að sjá að viðskiptahallinn verði viðráðanlegur í náinni framtíð. Óvissa er um framvinduna og má lítið út af bera til að efnahagurinn þróist ekki til verri vegar. Af þeim hagspám sem kynntar hafa verið á undangengnum vikum sýnist spá ASÍ vera raunsæ enda hafa samtökin lagt sitt af mörkum til bætts jafnvægis með hófstilltum samningum á síðasta ári.

Hjá ASÍ kveður við annan tón en þann sem annars staðar hefur heyrst þar sem viðrað hefir verið allt að 5% atvinnuleysi með tilheyrandi samdrætti. Engin efni eru til slíks og væri fráleitt ef stjórnvöld stæðu fyrir aðgerðum sem gætu leitt af sér slíka niðurstöðu.

Staðan í efnahagslífinu er flókin og verður ekki leyst í skyndingu heldur með yfirveguðum hætti yfir alllangt tímabil. Viðskiptahallinn er óviðunandi mikill en úr honum mun draga að einhverju leyti af sjálfu sér við verklok stórframkvæmda. Á móti kemur að ríkissjóður er sem næst skuldlaus. Verkefnið felst í að sýna hófstillingu á öllum sviðum opinberra útgjalda samhliða því sem treystar eru stoðir atvinnulífsins. Fyrirtækin hafa sótt í sig veðrið á fjölmörgum sviðum og skapa ný störf, auknar tekjur og greiða í vaxandi mæli í sjóði samfélagsins. Þar liggur grundvöllur velferðarinnar, almannatrygginganna, lífeyrissjóðanna, skólakerfisins og heilbrigðismálanna.

Háar skatttekjur af lágu skatthlutfalli

Greinilegur munur sést á stjórnmálaflokkum eftir skilningi á hvílíkir hvatar felast í skattkerfinu fyrir fyrirtækin og uppgang í atvinnulífinu. Þessi munur er flestum ljós. Fjármagnstekjuskattur og tekjuskattur félaga skilar ríkissjóði milljarðatugum öndvert við það sem átti við fyrir fáum árum þegar einungis örtekjur fengust af þessum stofnum. Að gefnu tilefni er rétt að ítreka að fjármagnstekjuskattur er brúttóskattur án frádráttarliða og leggst þess vegna miklu þyngra á stofninn en virðist við fyrstu sýn.

Eins er rétt að árétta að 18% tekjuskattur félaga skilar margföldum tekjum í ríkissjóð á við það sem fékkst af rúmlega 40% skatthlutfalli. Sjálfsagt mál er að hyggja að frekari lækkun hans með það fyrir augum að breikka skattstofninn og hala inn auknar tekjur til samfélagsverkefna.

Nýsköpun í atvinnulífinu

Einn stjórnmálaflokkur hefur kynnt eindreginn áhuga á að stefna á aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru enda sé krónan haldlítil mynt fyrir þarfir atvinnulífs og almennings. Aðrir flokkar hafa sýnt tómlæti í þessum efnum.

Atvinnulífið hefur haft forgöngu í málinu og ætti sjálft, fyrirtækin og launafólk, að standa að úttekt á tiltækum kostum í málinu; verðbólgumarkmiði flotkrónunnar eða að taka upp evru með aðild að evrópska myntbandalaginu. Þetta kallar á aðild að Evrópusambandinu að flestra dómi. Hugsanlega fælist helsti ávinningur Íslendinga af aðild í tækifæri til að taka upp hér sömu mynt og notuð er í Berlín, París og Róm. Úttekt á þessu hefir þegar reyndar farið fram að nokkru leyti. Niðurstaða ASÍ er að gildandi fyrirkomulag kosti hvert heimili í landinu hálfa milljón króna á ári. Hvað halda menn þá að viðskiptahindrunin sem leiðir af örmyntinni kosti atvinnulífið árlega í vaxtakostnaði og glötuðum viðskiptatækifærum?

Það hefur ekki verið nógu hátt til lofts og vítt til veggja í stjórnmálaumræðu um framtíðarskipan gjaldeyrismála. Viðkvæðið „ekki á dagskrá“ felur í sér afneitun sem ekki er búandi við. Meira að segja Morgunblaðinu sýnist nóg boðið í þrengslunum og talar um krónufangelsi. Stjórnmálalífið ætti að taka sér tak í þessu efni. En á meðan taka fyrirtækin eitt af öðru upp erlendan gjaldmiðil sem reikningseiningu, kauphallarmynt og nú síðast launagreiðslueyri.

Systurnar hagsæld og velferð

Fram hafa komið gagnlegar ábendingar um að einstakir þættir í velferðarkerfinu hafi gengið úr skorðum, ekki síst skerðingar bóta almannatrygginga og skattlagning lægstu tekna. Hér er brýnt að ráða bót á enda haldast hagsæld og velferð hönd í hönd og önnur óhugsandi án hinnar.

Velferðin í víðtækari skilningi kallar líka á ný tök. Einkaaðilar hafa þegar sýnt að þeir eru í færum til að ná miklum árangri á öllum sviðum skólakerfisins og samkeppnin hefur verkað eins og vítamínssprauta á háskólana. Hér liggja framtíðarhagsmunir landsmanna með vel menntuðu fólki sem tekur til hendi í atvinnulífinu.

Heilbrigðiskerfið þarf líka á einkaframtakinu að halda af því að landsmenn hafa ekki efni á öðru en færa sér í nyt kosti einkaframtaks á sviði þar sem velt er stórum hluta opinberra útgjalda. Trúir því einhver að hagkvæmasta skipan heilbrigðismála liggi í að fela ríkisstofnun án markaðsaðhalds veigamesta hluta heilbrigðisþjónustunnar? Menn sjá hvert stefnir: Reisa á spítalabákn ofan í alþjóðaflugvöll í Vatnsmýrinni, yst í byggð höfuðborgar­svæðisins, þvert á ráð færustu manna. Hvaða einkafyrirtæki halda menn að stæði svona að málum? Hvers eiga sjúklingar að gjalda að svona sé farið með fé sem brýnt er að nýtist þeim hver króna?

Og þegar rætt er um Vatns­mýrina; úr því sammæli hefur orðið með mönnum að flugvöllurinn víki úr mýrinni blasir við gullið tækifæri til gróskumikillar þróunar borgarinnar á miklu landflæmi. Uppbygging vanrækts hluta borgarinnar mun leysa úr læðingi nýja krafta.

Hér blasa verkefnin við. Hér þarf ný tök.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×