Viðskipti innlent

Sameining fréttastofa í vændum?

Kanadíska fyrir­tækið Thomson íhugar að gera yfirtökutilboð í fréttaveituna Reuters sem heldur úti starfsemi víða um heim.
Kanadíska fyrir­tækið Thomson íhugar að gera yfirtökutilboð í fréttaveituna Reuters sem heldur úti starfsemi víða um heim. MYND/AFP

Breska fréttastofan Reuters staðfesti í gær að hún ætti í viðræðum við kanadíska upplýsingatæknifyrirtækið Thomson Corporation, sem íhugar að leggja fram 17,6 milljarða dala, 1.117 milljarða króna, yfirtökutilboð í fyrirtækið. Gangi það eftir mun sameinað fyrirtæki fá nýtt nafn, Thomson-Reuters.

Thomson rekur meðal annars fréttaveituna AFX en hefur á prjónunum að stækka við sig. Segir breska ríkisútvarpið að fréttastofa Reuters falli vel inn í starfsemina. Thomson sé efni­legur kaupandi. Það búi yfir góðri lausafjárstöðu og geti félögin í sameiningu orðið sterkt mótvægi við keppinaut þeirra, bandarísku fréttaveituna Bloomberg.

Orðrómur um hugsanlega yfirtöku á Reuters kom upp á föstudag og skaust gengi fyrirtækisins upp um 25 prósent í kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi. Af þessum sökum afréðu stjórnir beggja fyrirtækja að greina hluthöfum frá stöðu mála til að koma í veg fyrir óvissuástand. Fréttin varð til þess að hækka gengið enn frekar í dag en þá fór það upp um 6,7 prósent í kauphöllinni.

Tilboð Thomson hljóðar upp á 352,5 pens á hlut auk hlutabréfa í fyrirtækinu. Reuters metur bréfin hins vegar á 697 til 705 pens á hlut. Til samanburðar stóð það í 642 pensum á hlut í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×