Skoðun

Innistæðulaust kaupmáttargort

Árni Páll Árnason skrifar
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa á undanförnum árum snúið baki við stöðugleika og ýtt með ábyrgðarlausum hætti undir ofþenslu í efnahagslífi. Afleiðingin er 8% verðbólga, 27% viðskiptahalli og 14% stýrivextir. Í fálmkenndri vörn hafa stjórnarflokkarnir leitast við að réttlæta óstöðugleikann með því að vísa til þess að kaupmáttur hafi vaxið svo mikið. Í því samhengi hafa þeir bent á að kaupmáttur hafi vaxið um nærri 60% á 10 árum. Röksemdin virðist vera sú að óstöðugleikinn sé fórnarkostnaður sem réttlætanlegt sé að fella á heimilin í landinu til að tryggja óvenjumikinn kaupmátt.

Fyrir það fyrsta er kaupmáttur sem fenginn er við svona aðstæður ótryggur í eðli sínu. Um það vitna gengisfellingahrinur og óðaverðbólguskeið undanfarinna áratuga, sem einatt komu í kjölfar mikillar kaupmáttaraukningar. Einu sinni hafði Sjálfstæðisflokkurinn til þess metnað að tryggja stöðugan og sjálfbæran hagvöxt. Sá tími er greinilega liðinn.

Í annan stað hefur verið sýnt fram á að þessum ávinningi hafi verið gríðarlega misskipt. Kaupmáttaraukningin var mest hjá þeim 10% sem mest höfðu fyrir, eða 120% og minnst hjá þeim 20% sem minnst höfðu fyrir, eða 30%.

Í þriðja lagi er svo ljóst að meðaltalskaupmáttaraukningin var ekkert óvenjuleg. Í ráðstöfunaruppgjöri heimilageirans, sem Hagstofan gaf út 16. apríl sl. kemur fram að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi aukist um 56% milli áranna 1994 og 2005. Hækkun kaupmáttar upp á 56% á 11 árum jafngildir árlegri hækkun upp á 4,1%. Eins og taflan hér að neðan sýnir er þessi hækkun ekki óvenju mikil í sögulegu samhengi.

Svipuð eða meira hækkun var til að mynda á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Kaupmáttaraukningin var hins vegar tiltölulega lítil frá því síðla á níunda áratugnum og fram til aldamóta.

Mikilvæg skýring á mikilli hækkun kaupmáttar síðustu 11 ára er að í upphafi tímabilsins var mikil umframafkastageta í hagkerfinu í kjölfar langvarandi samdráttarskeiðs. Í ofanálag er mikil framleiðsluspenna, eða landsframleiðsla umfram framleiðslugetu hagkerfisins, í lok tímabilsins. Samkvæmt mati Seðlabanka Íslands var spennan um 4,9% af landsframleiðslu árið 2005 en slakinn árið 1994 var metinn um 2,1%. Ef gert er ráð fyrir að hlutdeild launa í landsframleiðslu sé stöðug má gera ráð fyrir að þetta samsvari að kaupmáttaraukningin á tímabilinu sé ofmetin um u.þ.b. 7,2% miðað við líklega þróun kaupmáttar ef jafnvægi hefði ríkt í upphafi og við lok tímabilsins. Að teknu tilliti til þessara áhrif umreiknast árleg hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann í 3,47%. Meðaltal kaupmáttaraukninga árin 1950-2000 var 3,4%.

Kaupmáttur hefur vissulega verið ágætur síðustu 11 árin og því ber að fagna. Kaupmáttarþróunin er þó ekkert sérlega markverð í sögulegu samhengi og þegar tekið er tillit til framleiðsluspennu kemur í ljós að hún er í meðallagi. Það er ekkert við kaupmáttaraukningu undanfarinna ára sem réttlætir þá alvarlegu aðför að hagsmunum almenns launafólks sem felst í viðvarandi verðbólgu, ofurvöxtum og viðskiptahalla. Metnaðarlausir og huglausir ríkisstjórnarflokkar verða að finna sér eitthvað annað fíkjulauf að skýla sér bakvið.

Árleg hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna eftir áratugum

Tímabil - Meðalhækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann

1951-1960 - 4,0%

1961-1970 - 4,8%

1971-1980 - 5,3%

1981-1990 - 1,5%

1991-2000 - 1,7%

1951-2000 - 3,4%

1994-2005 - 4,1%

1994-2005 - leiðrétt fyrir framleiðsluspennu 3,47%*

Höfundur er lögfræðingur og skipar 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×