Viðskipti innlent

Teygja sig nú um mestallan heim

Peder Winther framkvæmdastjóri frystivöruflutningasvið Samskipa segir félagið á höttunum eftir samstarfsfyrirtækjum um heim allan með það fyrir augum að efla flutninganet sitt.
Peder Winther framkvæmdastjóri frystivöruflutningasvið Samskipa segir félagið á höttunum eftir samstarfsfyrirtækjum um heim allan með það fyrir augum að efla flutninganet sitt.

Samskip hafa tekið upp samstarf við flutningafyrirtækið Gulf Agency Company (GAC) sem er með höfuðstöðvar í Dubai. Peder Winther, framkvæmdastjóri frystivöruflutningasviðs Samskipa, tilkynnti um samstarfið við opnun sjávarútvegssýningarinnar í Brussel (Europan Seafood Exposition) í gær.

Með tilkomu samstarfsins segjast Samskip nú geta boðið stórbætta þjónustu í frystivöru- og flutningsmiðlun í Suðaustur-Asíu, á Indlandi, í Austurlöndum nær og í nokkrum löndum Afríku, þar á meðal Egyptalandi og Suður-Afríku.

Peder Winther segir að uppbygging frystivöru- og flutningsmiðlunar Samskipa byggist á reynslu félagsins í flutningum á frystum sjávarafurðum og að með því að tengja saman þjónustunet félagsins og samstarfsfyrirtækja sé nú hægt að bjóða heildstæða flutningsþjónustu frá dyrum sendanda að dyrum móttakanda á heimsvísu, sama um hvaða varning er að ræða.

Samkomulagið við GAC kemur í kjölfar tveggja annarra samstarfssamninga Samskipa í Suður-Ameríku, en félagið styrkti einnig nýverið stöðu sína í Norður-Ameríku með kaupum á helmingshlut í Bayside Food Terminal i Kanada. Þá er ekki langt síðan tilkynnt var um samstarf við Interocean Shipping Corporation i Japan. Peder Winther segir Samskip hins vegar langt frá því að leggja árar í bát í þessum efnum og nefnir möguleikann á frekara samstarfi í Suður-Ameríku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×