Viðskipti innlent

Helmingsveltuaukning með hlutabréf OMX

Þórður Friðjónsson 
forstjóri íslensku kauphallarinnar.
Þórður Friðjónsson forstjóri íslensku kauphallarinnar.

Kauphallarsamstæðan OMX skilaði hagnaði upp á 257 milljónir sænskra króna á fyrsta ársfjórðungi. Það jafngildir 2,4 milljörðum íslenskra króna. Samstæðan rekur kauphallir víða á Norðurlöndunum, meðal annars hér, og í Eystrasaltslöndunum. Til samanburðar nam hagnaður samstæðunnar 244 milljónum sænskra króna á sama tíma í fyrra. Það jafngildir rétt rúmlega 2,3 milljörðum íslenskra króna.

Tekjur samstæðunnar námu 1.062 milljónum sænskra króna, 10,1 milljarði íslenskra króna á tímabilinu, samanborið við 903 milljónir sænskra króna, 8,6 milljarða íslenskra króna, á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarhagnaður OMX á þessu þriggja mánaða tímabili nam 348 milljónum sænskra króna og hefur aldrei verið meiri. Það jafngildir 3,3 milljörðum íslenskra króna.

Ein helsta ástæða að baki vexti kauphallanna er aukin viðskipti með hlutabréf. Jókst veltan um helming frá fyrsta fjórðungi síðasta árs til þessa. Hér á landi er svipaða sögu að segja. „Það hefur verið gríðarlega mikil velta í kauphöllum OMX,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri íslensku kauphallarinnar. „Við eigum ágætt framlag til þessarar þróunar. Veltan á íslenska hlutabréfamarkaðnum hefur aukist mikið. Það eru töluvert meiri umsvif á markaðnum nú miðað við fyrsta ársfjórðung í fyrra, sem þó var gríðarlega góður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×