Viðskipti innlent

Bláa lónið metið á fjóra milljarða

Nýtt hlutafé var selt fyrir hálfan milljarð króna og skráðu hluthafar sig fyrir allri aukningunni.
Nýtt hlutafé var selt fyrir hálfan milljarð króna og skráðu hluthafar sig fyrir allri aukningunni.

Bláa lónið hf. er metið á 4.060 milljónir króna, miðað við nýleg viðskipti í félaginu.

Víkurfréttir greina frá því að Grindavíkurbær hafi selt 2,19 prósenta eignarhlut sinn fyrir 82 milljónir króna til Sparisjóðsins í Keflavík. Kaupgengið nam 5,8 krónum á hlut en fyrir skemmstu var hlutafé Bláa lónsins aukið úr 600 milljónum króna að nafnvirði í 700 milljónir, um hálfan milljarð að markaðsvirði, á genginu fimm krónur á hlut.

„Hér er verið að fjármagna vöxt félagsins. Við erum að taka okkar fyrstu skref á alþjóðamarkaði með vörumerkið og erum að ljúka við stækkun og endurbætur á baðstaðnum,“ segir Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, í samtali við Markaðinn. Hann segir að forkaupsréttarhafar hafi skráð sig fyrir allri aukningunni og talsverð umframeftirspurn myndast.

Grímur útilokar ekki að eignarhald að Bláa lóninu verði opnað, til dæmis með skráningu félagsins í kauphöll. „Vissulega er þetta möguleiki sem við tökum til skoðunar á seinni stigum, en nú horfum við til þeirra miklu og skemmtilegu verkefna sem við okkur blasa.“ Á síðustu átta árum hefur vöxtur Bláa lónsins verið um þrjátíu prósent að meðaltali á ári og fer árið í ár mjög vel af stað.

Að sögn Gríms er eigendahópur fyrirtækisins þéttur og traustur. Þrír kjölfestufjárfestar fara fyrir sjötíu hluthöfum. Stærsti hluthafinn í Bláa lóninu er Hitaveita Suðurnesja með rúmlega þriðjungshlut en eignarhaldsfélög sem eru tengd Grími fara með um helmingshlut. Sparisjóðurinn í Keflavík á um sjö prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×