Viðskipti innlent

Krónan ofmetin gagnvart dollar

Á fundir greiningardeildar. Ásgeir Jónsson forstöðumaður, Haraldur Yngvi Pétursson og Þóra Helgadóttir sérfræðingar greiningardeildar Kaupþings banka.
Á fundir greiningardeildar. Ásgeir Jónsson forstöðumaður, Haraldur Yngvi Pétursson og Þóra Helgadóttir sérfræðingar greiningardeildar Kaupþings banka. MYND/Valli

Hátt gengi krónunnar skýrist fyrst og fremst af ofmati á gengi hennar gagnvart Bandaríkjadal. Raungengi gagnvart bandaríkjadal er nálægt sjö ára jafnvægisgildi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar Kaupþings banka.

Á fundi greiningardeildarinnar í gærmorgun kynntu Þóra Helgadóttir og Ásdís Kristjánsdóttir, sérfræðingar deildarinnar, úttekt sína á stöðu krónunnar. Þar kemur fram að viðskiptahalli verði viðvarandi næstu árin í ljósi vaxandi ójafnvægis þáttatekna, en undir þær falla laun, vextir og arðgreiðslur. „Slíkt ójafnvægi skýrist fyrst og fremst af erlendri skuldasöfnun íslenskra útrásarfyrirtækja. Hins vegar má velta fyrir sér hvort slíkt ójafnvægi sé áhyggjuefni sér í lagi ef litið er til íslensku krónunnar. Hátt raungengi krónunnar nú um stundir skýrist fyrst og fremst af ofmati íslensku krónunnar gagnvart dollara. Raungengi krónu gagnvart evru er hins vegar í

kringum jafnvægi,“ segir í ritinu.

Haraldur Yngvi Pétursson, sérfræðingur greiningardeildar Kaupþings, fór yfir þróun og horfur í Kauphöllinni á morgunverðarfundi með fagfjárfestum í fyrradag. Hér hefur vöxturinn verið mestur, 20,7 prósent það sem af er árinu, en næst á eftir kæmi sænska kauphöllin með 10,1 prósents vöxt. „Enn er töluvert rúm fyrir hækkun á úrvalsvísitölunni og teljum við að hún endi kringum 8.500 stig í lok árs,“ segir hann. Í fyrri spá bankans var gert ráð fyrir að vísitalan færi í 8.000 stig. Hann segir þó ekki ólíklegt að einhverjar sveiflur kunni að verða. Góð uppgjör fjármálafyrirtækja og ytri vöxtur er það sem greiningardeildin segir að styðji við hækkun markaðarins.

Þannig spáir greiningardeildin 75 prósenta hagnaðaraukningu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs frá sama tímabili í fyrra hjá þeim félögum sem afkomuspár bankans ná til og að hagnaður fjármálafyrirtækja aukist um 65 prósent.

Greiningardeildin er með þrjú félög í yfirvogun í umfjöllun sinni, en það eru Mosaic Fashions, Landsbankinn og Bakkavör. Spáð er 11 og 10 prósenta hækkun á gengi bréfa Bakkavarar og Landsbankans til tólf mánaða og 20,5 prósenta hækkun á gengi Mosaic Fashions. Þar spili inn í jákvæðar fréttir af breskum smásölumarkaði sem greiningardeildin telur að komi félaginu mjög til góða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×