Viðskipti innlent

Láta af samstarfinu

Tveir af stærstu sparisjóðum landsins, SPRON og BYR sparisjóður, hafa sagt skilið við hina sparisjóðina í sameiginlegum markaðsmálum undir heitinu „sparisjóðurinn". Samanlagt eru sparisjóðirnir tveir með um sextíu prósent af umsvifum sparisjóðanna.

SPRON hefur reyndar unnið undir eigin merkjum markaðslega séð um nokkurra ára skeið og BYR sparisjóður ætlar frá og með næstu áramótum að fara eigin leiðir þótt ekki liggi fyrir hvort það verði alfarið út úr markaðsmálum eða eingöngu auglýsingaþættinum.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, segir að þetta sé að vissu leyti eðileg þróun þegar til verða jafn stórar einingar og Byr sem varð til með samruna SPH og SPV.

Þeir sparisjóðir sem eftir verða ætla að þjappa sér saman að sögn Guðjóns. „Það er jafnöruggt að þeir sparisjóðir sem eru fyrir utan þessa tvo munu enn þá frekar herða samstarfið markaðslega. Auðvitað má gera ráð fyrir að minni peningar fari í þessi mál í heildina." Hann bendir á að sameiginlega ráði þeir sparisjóðir sem eftir verða nálægt tíu prósentum af einstaklingsviðskiptum í landinu þannig að mikill kraftur á að vera til staðar.

Enn vinna sparisjóðirnir saman á mörgum sviðum. „Það er mikilvægt að átta sig á því að allir sparisjóðir í landinu eru aðilar að Sambandi sparisjóða og vinna náið saman að stórum og smáum hagsmunamálum, til dæmis aðlögun og innleiðingu Basel 2, sem er flókið bankaverkefni, og fræðslumálum sparisjóðanna," segir Guðjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×