Viðskipti innlent

Fimmtungshækkun Úrvalsvísitölunnar

Ekki verður annað sagt en að hlutabréfamarkaðurinn hafi farið vel af stað eftir páskana, en Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,65 prósent í vikunni. Vísitalan hækkaði um 0,92 prósent í gær og stendur nú í nýjum methæðum í 7.739 stigum. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um rúman fimmtung en áramótagildi hennar var 6.410 stig.

Lækkun Moody"s á lánshæfismati bankanna hafði jákvæð áhrif, enda var lækkunin í takt við væntingar og eyddi ákveðinni óvissu á markaði. Búist er við mjög góðum uppgjörum fjármálafyrirtækja fyrir fyrsta ársfjórðung sem kann einnig að skýra góða stemmningu á markaði.

Exista leiðir hækkanir ársins með um 32,0 prósenta hækkun frá ársbyrjun. Bankarnir Kaupþing (26,9%) og Landsbankinn (26,8%) fylgja í kjölfarið. Atlantic Petroleum, Straumur-Burðarás og Actavis Group hafa jafnframt hækkað um fimmtung í virði á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×