Viðskipti innlent

Áhrif á íslensk fyrirtæki óljós

Áhrif þess að skattar verði lækkaðir úr þrjátíu prósentum í 28 prósent í Bretlandi eru óljós. Þetta er mat Hildar Árnadóttur, fjármálastjóra Bakkavarar Group.

Bakkavör er eitt þeirra íslensku félaga sem hefur mikla starfsemi í Bretlandi. Um 92 prósent af veltu félagsins kemur þaðan. Á síðasta ári greiddi samstæðan í heild 15,2 milljónir punda í skatta. Það jafngildir um tveimur milljörðum króna. Í einföldum heimi myndi félagið greiða meira en hundrað milljónum króna minna í skatt á Bretlandi með tveggja prósenta skattalækkun.

Reikningsdæmið er hins vegar ekki svo einfalt. Ýmsar frestunarheimildir eru við lýði í Bretlandi. Í heild nam virkt skatthlutfall hjá Bakkavör Group í fyrra 22,3 prósentum. Alls er því óvíst hvort eða að hve miklu leyti skattalækkanirnar munu hafa áhrif á rekstur Bakkavarar. „Þetta eru góðar fréttir,“ segir Hildur. „Það er samt ekki nógu margt komið fram í sambandi við framkvæmdina. Það er því eins og er ómögulegt að spá fyrir um áhrifin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×