Viðskipti innlent

Íslendingar hagnast á millilagslánum

Íslenski millilagslánasjóðurinn Carta Capital Mezzanine Fund 1 skilaði 1.160 milljóna króna hagnaði í fyrra samanborið við 763 milljónir króna árið 2005.

Lánasafn sjóðsins samanstendur eingöngu af millilags-lánum, fjármögnun sem liggur á milli hefðbundinna bankalána og eigin fjár við skuldsett fyrirtækjakaup. Stærð þess nam 6.983 milljónum króna í árslok. Ávöxtun á meðalstöðu lánasafns var 19,5 prósent en arðsemi sjóðsins hefur verið yfir meðalarðsemi evrópska markaðarins.

Mikill vöxtur hefur verið í veitingu millilagslána í Evrópu á síðustu árum. Óx markaðurinn um 27 prósent í fyrra en Carta Capital stækkaði um 35 prósent og lánaði sem svaraði til 3,8 milljarða króna. Sjóðurinn hefur sérhæft sig í minni verkefnum, lánum til smærri og meðalstórra fyrirtækja, sem hafa skilað betri arðsemi en þau stærri.

Horfur eru góðar í rekstri Carta Capital fyrir árið í ár, bæði hvað varðar afkomu og stöðu verkefna. Unnið er að því að fá fjárfesta til liðs við sjóðinn fyrir næsta fjárfestingarverkefni.

Sjóðurinn er í eigu sjóðastýringarfyrirtækisins Carta Capital GP sem er í eigu íslenskra banka, sparisjóða, lífeyrissjóða, tryggingarfélaga og félaga í eigu fjársterkra einstaklinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×