Viðskipti innlent

Stýrivextir líklega óbreyttir

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands

Greiningardeildir bankanna gera ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands haldi stýrivöxtum óbreyttum á vaxtaákvörðunardegi sínum á morgun, fimmtudag. Stýrivextir standa nú í 14,25 prósentum.

Landsbankinn og Kaupþing telja að lækkunarferli stýrivaxta hefjist ekki fyrr en í júlí, en Glitnir telur að það gæti hafist strax í maí. Sérfræðingar segjast þó hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með þróun húsnæðismarkaðar sem ekki hafi hægt nægilega á sér. Þannig er endurfjármögnun íbúðarhúsnæðis talin stór þáttur í að viðhalda hér þensluástandi sem á móti ýti undir verðbólgu. Þá var undirliggjandi verðbólga nokkuð há í síðustu mælingu Hagstofunnar, 7,7 prósent, en þá er búið að draga frá tímabundin áhrif af lækkunum á virðisaukaskatti í byrjun mánaðarins.

Það er því búist við nokkuð hörðum umvöndunartóni úr Seðlabankanum, en auk þess sem tekin verður ákvörðun um vexti heldur bankinn aðalfund sinn og gefur út efnahagsrit sitt, Peningamál. Þar verður farið yfir þróun hagstærða og mat lagt á hvert líklegt sé að hagkerfið haldi í framhaldinu. Seðlabankinn miðar ákvarðanir sínar í vaxtamálum við að ná verðbólgu niður í þolmörk bankans, sem liggja í 2,5 prósentum.

Greiningardeild Glitnis segir að eftir að vaxtalækkunarferli bankans hefjist komi stýrivextir til með að lækka með auknum hraða þegar líður á árið. „Reiknum við með að bankinn verði kominn með stýrivexti sína niður í 11,5 prósent í lok þessa árs og 6,5 prósent í lok árs 2008.“ Landsbankinn spáir því að í lok þessa árs standi stýrivextir í 11 prósentum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×