Viðskipti innlent

Hér taka færri konur þátt

Rögnvaldur J. Sæmundsson forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum.
Rögnvaldur J. Sæmundsson forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum.

Þátttaka kvenna í frumkvöðlastarfsemi er mun minni en karla og fer minnkandi. Einungis fjórðungur þeirra sem stunduðu frumkvöðlastarfsemi í fyrra voru konur. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu um umfang og umhverfi frumkvöðlastarfsemi hér á landi í fyrra.

Skýrsla sem þessi kemur út árlega, en í henni er frumkvöðlastarfsemi í um 40 löndum könnuð á samræmdan hátt. Um útgáfuna sér Rannsóknamiðstöð HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum.

Úr samanburði milli landa má meðal annars lesa að þátttaka íslenskra kvenna í frumkvöðlastarfsemi er sú lægsta í samanburðarlöndunum og að í fyrra hafi karlar verið þrisvar sinnum líklegri en konur til þess að taka þátt í slíkri starfsemi.

Umfang frumkvöðlastarfsemi hér í fyrra var meira en í flestum öðrum löndum í heiminum. „Það var nokkuð meira en í hátekjulöndunum í heild, talsvert meira en annars staðar á Norðurlöndum (að Noregi undanskildum) en sambærilegt við Bandaríkin,“ segir í niðurstöðum. Í fyrra unnu um átta prósent þjóðarinnar á aldrinum 18 til 64 ára, eða um 15 þúsund manns, að undirbúningi nýrrar viðskiptastarfsemi. „Þetta er talsvert hærra hlutfall en í öðrum sambærilegum hátekjulöndum og hefur farið hækkandi hér á landi á síðustu árum. Þróunin er þó sú að fleiri undirbúa, en færri láta slag standa,“ segir í skýrslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×