Viðskipti innlent

Samstarf tekið upp við MIT í Boston

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík hefur umsjón með nýjum samstarfssamningi íslensks atvinnulífs við MIT-háskólann í Boston í umboði Samtaka iðnaðarins og Viðskiptaráðs. Samstarfinu verður hleypt formlega af stokkunum með ráðstefnu fimmtudaginn 3. maí þar sem fulltrúar MIT munu kynna samstarfið nánar.

MIT er í efsta sæti bandarískra háskóla á sviði tækni og verkfræði, auk viðskipta og stjórnunar, og samstarfið því sagt munu opna gífurleg tækifæri til þekkingaröflunar og nýsköpunar fyrir íslensk fyrirtæki.

„Samningurinn felur í sér aðgang að víðtæku samstarfi, þekkingu og færni MIT samkvæmt þörfum, markmiðum og óskum þeirra fyrirtækja sem taka þátt í samstarfinu, en það verður með áskriftarfyrirkomulagi til eins árs. Samstarfsaðilar fá sendar upplýsingar um nýjungar, rannsóknir og þróunarverkefni sem verið er að vinna að og tengjast þörfum íslenskra fyrirtækja,“ segir í frétt um málið á vef Viðskiptaráðs Íslands. Fyrirtæki eru sögð munu fá aðgang að viðburðum á vegum MIT og að þau geti einnig fengið sendar niðurstöður rannsókna og skýrslur eftir þörfum og óskum.

Tengiliður við samstarf atvinnulífsins og MIT hér á landi er Aðalheiður Jónsdóttir hjá Stjórnendaskóla HR, en nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefslóðinni http://ilp-www.mit.edu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×