Viðskipti innlent

Evrópskar hagstofur rýna í hagtölur

Gunter Schäfer, frá Eurostat, Petra Kuncová, frá hagstofu Tékklands, Frank Nolan, frá hagstofu Bretlands, og Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri.
Gunter Schäfer, frá Eurostat, Petra Kuncová, frá hagstofu Tékklands, Frank Nolan, frá hagstofu Bretlands, og Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri. MYND/Anton

Þrír fulltrúar frá hagstofum í Evrópu komu hingað til lands í síðustu viku til að ræða um áreiðanleika íslenskra hagtalna og fara yfir það hvernig þær nýttust fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum, þar á meðal fjölmiðlum.

Koma þremenninganna er liður í samevrópsku verkefni þar sem starfsmenn hagstofa víða í Evrópu kanna verklagsreglur við gerð hagtalna. Hagstofustjórar EES-ríkjanna komu sér saman um að setja slíkar reglur í evrópskri hagskýrslugerð fyrir tveimur árum í kjölfar þess að Grikkir fegruðu ríkishallatölur með það fyrir augum að uppfylla skilyrði fyrir aðild að myntbandalagi Evrópusambandsins.

Um jafningjaeftirlit að ræða þar sem þriggja manna sendinefnd frá þremur hagstofum í Evrópu skoðar verklag við gerð og birtingu hagtalna í hinum ýmsu löndum með hliðsjón af reglunum sem framkvæmdastjórn ESB setti.

Að sögn Franks Nolan, sem kemur frá bresku hagstofunni, er mikilvægt að tryggja sjálfstæði hagstofa til að koma í veg fyrir misbeitingu hagtalna líkt og gerðist á Grikklandi.

Hópurinn dvaldi hér í fjóra daga og skrifaði skýrslu um málið sem birtast mun í ársskýrslu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, fyrir yfirstandandi ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×