Viðskipti innlent

Shire kærir Actavis

Frumlyfjafyrirtækið Shire hefur höfðað mál á hendur Colony Pharmaceuticals, dótturfyrirtæki Actavis í Bandaríkjunum, fyrir brot á einkaleyfi við framleiðslu á athyglisröskunarlyfinu Adderal XR.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri innri og ytri samskipta Actavis, segir Shire reyna að hægja á skráningu samheitalyfsins hjá Actavis, sem hefur lagt inn umsókn hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu.

Einkaleyfi Shire rennur út eftir tvö ár og eru nokkur lyfjafyrirtæki þegar komin í skráningarferli. Ekkert þeirra er komið með markaðsleyfi í Bandaríkjunum en líklegt þykir að Barr, Pharmaceuticals verði fyrst til árið 2009.

Halldór segir málaferli Shire á hendur samheitalyfjafyrirtækjum hafa byrjað árið 2003. Frá þeim tíma hafi sættir náðst í nokkrum málum. „Þegar þeir svo sjá að við höfum lagt inn umsókn fyrir lyfinu gera þeir það sama og við hin lyfjafyrirtækin. Þetta er hefðbundið ferli þar sem menn reyna að koma í veg fyrir að þau fari á markað," segir Halldór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×