Viðskipti innlent

Fengju kaupvirðið til baka

Unnið er að áreiðanleikakönnun á Atlas Cold Storage, dótturfélagi Hf. Eimskipafélagsins, vegna sölu á eignum félagsins.
Unnið er að áreiðanleikakönnun á Atlas Cold Storage, dótturfélagi Hf. Eimskipafélagsins, vegna sölu á eignum félagsins. MYND/GVA

Hf. Eimskipafélagið gæti fengið nær allt kaupverð Atlas Cold Storage til baka með eignasölu fyrir tæpa 35 milljarða króna. Horft er til kanadískra lífeyrissjóða sem kaupenda. Tap varð af rekstri félagsins á fyrsta ársfjórðungi.

Hf. Eimskipafélag Íslands undirbýr sölu fasteigna dótturfélagsins Atlas Cold Storage til erlendra og jafnvel íslenskra fjárfesta með fulltingi Royal Bank of Canada. Fyrirtækið hefur í hyggju að leigja eignir þessa annars stærsta frysti- og kæligeymslufyrirtækis Norður-Ameríku til baka á sem hagstæðustu kjörum.

Forstjórinn Baldur Guðnason býst við að sala á fasteignum og lóðum geti skilað félaginu yfir 600 milljónum Kanadadala, tæpum 35 milljörðum, sem er heldur yfir því markaðsvirði sem upphafleg athugun gerði ráð fyrir. Þegar fyrirtækið yfirtók Atlas síðla árs 2006 nam heildarvirði félagsins 630 milljónum Kanadadala að meðtöldum öllum kostnaði vegna yfirtökunnar.

„Við förum inn með óbundnar hendur til þessa verkefnis en teljum að kanadískir lífeyrissjóðir gætu verið áhugasamir kaupendur," segir Baldur. Lífeyrissjóðir í Kanada horfa á fjárfestingar til lengri tíma sem felur í sér lægri ávöxtunarkröfu. Einnig kemur til greina að fyrirtækið sjálft taki hlut í félagi utan um eignirnar.

Með sölunni léttist á skuldsetningu Eimskipafélagsins og gera stjórnendur þess ráð fyrir að eiginfjárhlutfall samstæðunnar fari úr 29 prósentum í 35. Baldur bendir á að kaup félagsins í Atlas og Daalimpex, einu stærsta frystigeymslufyrirtæki Evrópu, eru öðrum þræði fjárfesting í eignum og lóðum og því fæst sjálfur reksturinn fyrir lítið sem ekkert.

Baldur hefur verið ráðinn forstjóri Hf. Eimskipafélagsins en hann var forstjóri dótturfélagsins Eimskips. Félögin tvö munu brátt sameinast undir merkjum Hf. Eimskipafélagsins.

Fyrirtækið tapaði sex milljónum evra, um 530 milljónum króna, á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins, sem lauk í janúar. Er þetta jafnan lakasti fjórðungurinn en hagnaður var undir spám greiningardeilda bankanna. Umbreytingar í rekstri settu svip sinn á uppgjörið, til dæmis voru fjármagnsliðir neikvæðir um 1,6 milljarða en þar af féllu til 700 milljónir eingöngu til vegna skulda af Atlas-kaupum.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 2.850 milljónum króna. „Ég er ánægður með fjórðunginn, við teljum okkar hafa náð góðum árangri," sagði Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður félagsins á kynningarfundi í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×