Viðskipti erlent

Fallni forstjórinn dæmdur fyrir svik

Fallni forstjórinn Takafumi Horie er hann kom til héraðsdómsins í Tókýó í Japan í gær,
Fallni forstjórinn Takafumi Horie er hann kom til héraðsdómsins í Tókýó í Japan í gær, MYND/AFP

Takafumi Horie, stofnandi og fyrrverandi forstjóri japanska netfyrirtækisins Live-door, hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir umfangsmikil bókhaldssvik í Japan á föstudag. Réttarhöld í máli hans hafa staðið yfir í hálft ár en ríkissaksóknari fór fram á fjögurra ára dóm. Dóminum var áfrýjað um helgina og hefur Horie verið látinn laus gegn tryggingu upp á jafnvirði tæpra 289 milljóna króna.

Mál Hories komst í hámæli í byrjun síðasta árs þegar upp komst að fjármálayfirvöld væru með Livedoor til rannsóknar vegna bókhaldssvika. Fjölmargir fjárfestar losuðu sig við bréf sín í félaginu á skömmum tíma með þeim afleiðingum að mikið álag varð á kauphöllina í Tókýó sem réð ekki við viðskiptin og var afráðið að loka henni fyrr en venjulega.

Á meðal þess sem Horie var dæmdur fyrir var að falsa afkomutölur til að láta sem fyrirtækið, sem var mikið að vöxtum, hefði skilað hagnaði að jafnvirði 2,9 milljarða króna þegar raunin var sú að tapreksturinn nam jafnvirði 178 milljónum króna. Dómari í málinu segir Horie hafa stofnað fjölmarga sjóði með það fyrir augum að blekkja hluthafa Livedoor.

Horie hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og sagði síðast í sjónvarpsviðtali um helgina að sök hafi verið komið á sig.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×