Lífið

Ekkert plat þótt fermingin sé 1. apríl

Sigurður fann fína skó í Kringlunni
Sigurður fann fína skó í Kringlunni MYND/Hrönn
Eitt þeirra barna sem fermist í Bjarnarneskirkju í Hornafirði á pálmasunnudag er Sigurður Ragnarsson í Akurnesi. Hann brá sér í bæinn um síðustu helgi til að festa kaup á skóm fyrir ferminguna en jakkaföt var hann búinn að kaupa í versluninni Lóninu á Höfn. Fréttablaðið rakst á hann í Kringlunni ásamt Önnu Lilju systur sinni, búinn að finna skó í Skór.is sem honum leist vel á

„Ég hugsa líka að Björg frænka okkar verði ánægð, þeir eru svo fínir," segir Anna Lilja. „Henni fannst að ég hefði átt að velja mér lakkskó þegar ég fermdist."

Þegar farið er að spjalla við Sigurð kemur í ljós að það var fleira en fermingarskórnir sem drógu hann til borgarinnar því íþróttavörubúðirnar heilla.

„Fótboltinn er aðaláhugamálið mitt og ég hef verið að skoða bæði takkaskó og markmannshanska," segir hann brosandi. Hann kveðst hafa æft fótbolta í sjö ár og skipa nú stöðu markmanns í fjórða flokki hjá Sindra sem er farinn að spila 11 manna bolta á stórum völlum. Áhuginn liggur víðar því drengurinn hefur líka gaman af búskap. „Ég fer yfirleitt í fjárhúsin á hverjum degi ef ég fer ekki út á Höfn á æfingar," segir hann. 

Sigurður er yngstur níu systkina. Hann á von á mörgum gestum í fermingarveisluna sem haldin verður heima.

„Það koma líklega milli 100 og 150 gestir, þannig hefur það alltaf verið," segir hann og kveðst muna eftir fermingum tveggja bræðra sinna sem eru næstir honum í aldri. Hann telur að haldið verði í þær hefðir að bjóða upp á kaffihlaðborð með heimabökuðum kökum og aðspurður segir hann skyr-tertu með perum í mestu uppáhaldi hjá honum.

Þar sem pálmasunnudag í ár ber upp á 1. apríl er Sigurður spurður í gamni hvort þetta verði nokkuð platferming. Þá hlær hann og svarar: „Nei, ég vona ekki og held það séu engar líkur á því." Hann kveðst hafa gengið reglulega til prestsins í vetur þar sem farið var yfir kafla úr bókinni Líf með Jesú. Einnig er hann langt kominn með að læra sálmana sem honum voru settir fyrir en messuskyldan er aðeins að þvælast fyrir. „Við eigum að fara í tíu messur yfir veturinn og ég náði fimm fyrir áramót en hef verið aðeins latari upp á síðkastið," segir hann en kveðst samt ágætlega trúaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×