Viðskipti innlent

Nýr vefur um netöryggi

Skjámynd af netöryggi.is. Á endurbættum vef Póst- og fjarskiptastofnunar tileinkuðum netöryggi og umgengnisreglum á netinu er að finna margvíslegar ráðleggingar bæði til almennings og fyrirtækja.
Skjámynd af netöryggi.is. Á endurbættum vef Póst- og fjarskiptastofnunar tileinkuðum netöryggi og umgengnisreglum á netinu er að finna margvíslegar ráðleggingar bæði til almennings og fyrirtækja.

Á vefnum Netöryggi.is, nýendurbættum vef Póst- og fjarskiptastofnunar, er fjallað um margvísleg öryggismál internetsins. Vefurinn var fyrst settur í loftið fyrir um ári, en hefur nú verið endurbættur.

Vefurinn er fyrst og fremst ætlaður almenningi en á honum er jafnframt efni sem getur nýst litlum fyrirtækjum. Hann inniheldur leiðbeiningar og fræðsluefni um öryggismál, neytendavernd, persónuvernd og siðferðileg álitaefni sem tengjast sívaxandi notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Meðal þess sem er að finna á vefnum eru tíu góð ráð sem eiga að geta stuðlað að áhyggjulausri netnotkun. Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri PFS, líkir öryggismálum tölva við bílbeltanotkun. „Beltin hjálpa engum nema þau séu notuð,“ segir hann. „Um leið og tölva er tengd netinu er hún komin út í umferðina.“

Meðal þess sem netnotendum er bent á er að þeir séu komnir á sérstök hættusvæði í allri leit að ólöglegri tónlist, myndefni, leikjum eða klámi. Þá geti hnappar í vafasömum gluggum sem upp spretta leitt til annars en fólk hyggur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×