Viðskipti innlent

Tveir milljarðar í tap en framlegð hækkar

Flaggskipið Engey. Stærsta útgerðarfélag landsins tapaði tveimur milljörðum í fyrra.
Flaggskipið Engey. Stærsta útgerðarfélag landsins tapaði tveimur milljörðum í fyrra.

HB Grandi skilaði 1.980 milljóna króna tapi í fyrra samanborið við 549 milljóna króna hagnað árið áður. Á fjórða ársfjórðungi tapaði félagið 943 milljónum á móti 387 milljóna króna tapi árið 2005.

Tapið skýrist fyrst og fremst af hækkandi fjármagnsgjöldum, auknum gengismun erlendra lána og verðbótum. Alls voru fjármagnsliðir neikvæðir um 3.659 milljónir en jákvæðir um 237 milljónir árið áður.

Grunnrekstur félagsins batnaði töluvert vegna hækkandi afurðaverðs og lækkunar á gengi krónunnar. Rekstrartekjur jukust um 26 prósent í fyrra og námu 13.658 milljónum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 2.685 milljónir, eða 19,7 prósent af rekstrartekjum, samanborið við 1.633 milljónir árið 2005 sem jafngilti 15,1 prósenti rekstrartekna. Á fjórða ársfjórðungi hækkaði framlegðarhlutfallið í 17,1 prósent úr 5,7 prósentum frá fyrra ári.

Eignir félagsins námu tæpum þrjátíu milljörðum króna í árslok. Eigið fé var 8.195 milljónir og eiginfjárhlutfall því 27,4 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×