Viðskipti innlent

Rafræn skilríki tekin í gagnið

Geir H. Haarde forsætisráðherra opnaði stórsýninguna Tækni og vit í Fífunni.
Geir H. Haarde forsætisráðherra opnaði stórsýninguna Tækni og vit í Fífunni.

Fyrsta rafræna skilríkið var tekið í notkun á ráðstefnu forsætis- og fjármálaráðuneytis „Nýtum tímann – notum tæknina“ fyrir helgi. Er því spáð að á næsta ári verði meirihluti landsmanna kominn með rafræn skilríki.

Ráðstefnan var haldin í tengslum við UT-daginn, en rafræn skilríki voru áberandi í dagskránni og á sýningunni Tækni og viti 2007 í Fífunni sem lauk á sunnudag. Skilríki voru meðal annars kynnt á vegum Auðkennis, Landsbankans og fjármálaráðuneytisins.

Um fimmtán þúsund gestir heimsóttu Tækni og vit 2007 en þar kynntu rúmlega 100 fyrirtæki vörur sínar og þjónustu.

Geir H. Haarde forsætisráðherra opnaði sýninguna á fimmtudag en að því loknu héldu þeir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, og Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, ávörp.

Þá heimsótti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sýninguna í boði Samtaka iðnaðarins en hann gróðursetti sprota á Sprotatorgi samtakanna. Samtökin stóðu auk þess að ráðstefnu um samband fjárfesta og sprotafyrirtækja á föstudag.

Sprotatorgið kom frekar við sögu á sýningunni um helgina en það var valið athyglisverðasta svæðið á sýningunni. Önnur verðlaun hlaut fyrirtækið CAOZ en hugbúnaðarfyrirtækið Rue de Net og hönnunarfyrirtækið H2 hönnun deildu með sér þriðju verðlaununum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×