Viðskipti innlent

Áhugi að auka stofnfé SPM

Áhugi er fyrir hendi hjá Borgarbyggð að auka stofnfé Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM) en sveitarfélagið er eini stofnfjáreigandi sparisjóðsins.

„Það hefur verið til skoðunar hjá sveitar­félaginu að auka stofnfé. Við erum ekki búin að ákveða hve mikið en við værum að tala um verulega aukningu á stofnfé, einhvers staðar á bilinu 250-350 milljónir króna,“ segir Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, og býst við að ákvörðun liggi fyrir í haust. Stofnfé sparisjóðsins er aðeins um fjórar milljónir króna en eigið fé rúmir 3,5 milljarðar.

Páll segir að málið hafi verið reifað við stjórnendur sparisjóðsins sem hafa tekið vel í hugmyndina. Sveitarfélagið ætti þar með kost á að fá eðlilegri arð af eign sinni og eigið fé sparisjóðsins myndi styrkjast með þessari aðgerð.

Aðspurður segir Páll að það hafi ekki komið til tals að opna eignarhald að SPM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×