Viðskipti innlent

Industria meðal 50 framsæknustu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Guðjón Már Guðjónsson, sem er framkvæmdastjóri Industria, segir val CNBC European Business hafa komið skemmtilega á óvart.
Guðjón Már Guðjónsson, sem er framkvæmdastjóri Industria, segir val CNBC European Business hafa komið skemmtilega á óvart.
Viðskiptatímaritið CNBC European Business hefur útnefnt Industria sem eitt af 50 framsæknustu fyrirtækjum Evrópu.

Dómnefnd segir að Industria gæti reynst „eitt mikilvægasta fyrirtækið í samruna sjónvarps og stafrænna miðla í Evrópu“. Útnefningin er í flokki upplýsingatæknifyrirtækja, en þar er að auki að finna fyrirtækin Skype, Tiscali, Aresa og Icera.

Umsjón með matinu hafði alþjóða ráðgjafarfyrirtækið PRTM, en meðal þeirra þátta sem litið var til í matinu var umsögn 60 fyrirtækja víðs vegar um álfuna.

Tímaritið segir meðal annars að metnaður Industria endurspeglist meðal annars í staðsetningu skrifstofa fyrirtækisins, í Bretlandi, Írlandi, Búlgaríu og Kína.

„Þessi tígur frá Íslandi sérhæfir sig í hugbúnaði til tengingar breiðbandsneta og þráðlausra neta. Lausnir þess fyrir stafrænt sjónvarp og aðra þjónustu, sem ganga undir nafninu Zignal, hafa vakið mikla eftirtekt,“ segir í umsögninni.

Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri Industria, segir tilnefninguna hafa komið þægilega á óvart. Í tilkynningu félagsins segir hann framsækni og nýsköpun Industria ekki bara hafa birst í vöruþróun heldur einnig í innri ferlum og þáttum sem geri fyrirtækinu kleift að svara hraðar kröfum markaðarins.

Zignal-hugbúnaðurinn hefur verið á markaði á annað ár. Á IPTV World Forum-sýningunni í Lundúnum í byrjun mánaðarins sýndi Industria nýjustu lausnir sínar fyrir stafrænt sjónvarp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×