Viðskipti innlent

Straumur-Burðarás hugsanlega úr landi

Björgólfur Thor Björgólfsson stjórnarformaður Straums-Burðaráss á aðalfundi bankans í gær.
Björgólfur Thor Björgólfsson stjórnarformaður Straums-Burðaráss á aðalfundi bankans í gær. MYND/Anton

Straumur-Burðarás verður hugsanlega færður til Bretlands eða Írlands. Þetta kom fram í ræðu Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns Straums-Burðaráss, á aðalfundi bankans í gær.

Nýleg reglugerð sem þrengir verulega heimild fjármálafyrirtækja til að gera upp í erlendri mynt er ástæðan fyrir þessum hugmyndum. Stjórn Straums-Burðar-áss ákvað síðla síðasta árs að uppgjörsmynt bankans yrði evra. Björgólfur sagði ljóst að íslensk fjármálafyrirtæki, sem hafi um helming tekna sinna af starfsemi sinni erlendis, geti ekki unað því að þrengt verði að kostum þeirra með sértækum aðgerðum hér á landi.

Í máli Björgólfs kom einnig fram að stjórnendur félagsins leita nú nýs nafns á félagið. Hið rammíslenska nafn Straumur-Burðarás hafi reynst vel. Það sé hins vegar ólipurt í framburði fyrir útlendinga sem ekki þekkja íslenska sérhljóða.

Á fundinum var tillaga stjórnar um að heimild fengist til að gefa út hlutafé í sömu mynt samþykkt. Þá var sjálfkjörið í stjórn bankans. Björgólfur fagnaði sérstaklega komu bandaríska fjárfestisins James Leitner í stjórnina. Félag hans á að nafnvirði hundrað milljónir króna í Straumi-Burðarási.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×