Viðskipti innlent

Margföldun stofnfjár lögð til

Ragnar Z. Guðjónsson og Magnús Ægir Magnússon, sem fara fyrir Byr - sparisjóði, á kynningu á nýju nafni í Smárabíói á laugardag. Sjóðurinn varð til við sameiningu Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra.
Ragnar Z. Guðjónsson og Magnús Ægir Magnússon, sem fara fyrir Byr - sparisjóði, á kynningu á nýju nafni í Smárabíói á laugardag. Sjóðurinn varð til við sameiningu Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra.

Lögð verður fyrir aðalfund Byrs - sparisjóðs tillaga um heimild til stjórnar til að auka stofnfé sjóðsins í þrjátíu milljarða króna. Heimildin yrði til fimm ára, eða til ársins 2012, en aukning næmi um 130-földun því stofnfé sjóðsins er nú um 231 milljón króna.

Ragnar Z. Guðjónsson, annar tveggja sparisjóðsstjóra Byrs, sem varð til fyrir áramót við sameiningu Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra, áréttar að einungis sé um heimild til aukningar að ræða. Markið sé hins vegar sett á vöxt sparisjóðsins og heimildin geri sjóðnum kleift að bregðast við tækifærum sem upp kunni að koma.

Byr - sparisjóður skilaði ársuppgjöri sínu til Kauphallar í gær. Samanburður á milli ára sýnir gríðarlegan vöxt á fjölda pósta, en það skýrist af sameiningu félaganna, því sameinaður rekstur er borinn saman við tölur úr ársreikningi Sparisjóðs vélstjóra. Hagnaður Byrs - sparisjóðs á síðasta ári nam þannig 3.200 milljónum króna fyrir skatta samanborið við 1.366 milljónir árið 2005 og nemur aukningin rúmum 135 prósentum. Hagnaður Byrs eftir skatta nam hins vegar tæpum 2,7 milljörðum króna, samanborið við rúmlega 1,1 milljarð árið áður. Á ársgrundvelli er arðsemi eigin fjár Byrs - sparisjóðs 23 prósent.-






Fleiri fréttir

Sjá meira


×