Lífið

DiCaprio í myndatöku fyrir Vanity Fair á Íslandi

Leonardo DiCaprio
Leonardo DiCaprio

Bandaríski stórleikarinn Leonardo DiCaprio lendir á Íslandi í dag ásamt ljósmyndara og starfsfólki frá bandaríska glanstímaritinu Vanity Fair. Ætlunin er að taka myndir af leikaranum fyrir forsíðuviðtal sem birtist við DiCaprio á síðum blaðsins. Skammt er því á milli komu stórstjarna hingað enda ekki langt síðan Jude Law hreiðraði um sig á 101 hótel ásamt fjölskyldu sinni.

Framleiðslufyrirtækið True North aðstoðar tökuliðið og DiCaprio meðan það dvelst hér á landi en Finnur Jóhannsson, framleiðandi hjá True North, vildi ekkert tjá sig um málið, sagði fyrirtækið ekki upplýsa um komur stórstjarna til landsins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður farið með leikarann upp á Snæfellsjökul og verður hann bróðurpartinn af dvöl sinni úti á landi. DiCaprio verður á landinu í nokkra daga og gefur sér örugglega tíma til að skoða helstu kennileiti landsins.

Stjarna DiCaprio hefur sjaldan eða aldrei skinið jafn skært og um þessar mundir. Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrr á þessu ári fyrir leik sinn í Blood Diamond og lék jafnframt aðalhlutverkið í kvikmyndinni The Departed sem hlaut styttuna góðu í flokknum besta myndin. Vafalítið hefur hann þar fengið að heyra góða hluti frá mótleikara sínum Ray Winstone sem kom hingað til lands í fyrra og lét vel af.

DiCaprio hefur verið hirðleikari bandaríska þungavigtarleikstjórans Martin Scorsese og leikið í kvikmyndum hans Gangs of New York og The Aviator auk áðurnefndrar The Departed en reiknað er með að leikarinn taki að sér hlutverk Theo-dore Roosevelt í næstu kvikmynd leikstjórans.

DiCaprio vakti fyrst athygli á hvíta tjaldinu í hlutverki hins þroskahefta Arnie Grape í kvikmyndinni What's Eating Gilbert Grape og hlaut meðal annars tilnefningu til Óskarsverðlauna árið 1994 en fram að því hafði hann leikið eitt aðalhlutverkanna í sjónvarpsþáttunum Vaxtarverkjum eða Growing Pains. DiCaprio var þó ekki spáð miklum frama þegar unglingsárin yrðu að baki en þær gagnrýnisraddir þögnuðu fljótlega þegar stórslysamyndin Titanic varð einhver stærsti smellur kvikmyndasögunnar.

Myndin rakaði inn Óskarsverðlaunum en það var fyrir tilstilli leikstjórans James Cameron að DiCaprio var valinn. Myndin tryggði honum sess meðal stærstu stjarna Hollywood og í dag eru fáir leikarar sem trekkja jafnmarga gesti að í kvikmyndahúsunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.