Innlent

Útlit fyrir rólegheitaveður á 17. júní

Vel horfir með veður á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní sem er á sunnudaginn. Rólegaheitaveður og þurrt er í kortunum.

Veðrið ræður ávallt miklu um stemmninguna sem skapast á 17 júní. Fátt er fallegra en að halda þjóðhátíðardaginn í björtu veðri þar sem þjóðfáninn blaktir og skartar sínu fegursta.

Ágætar veðurhorfur eru til hátíðahalda nú á sunnudaginn kemur, vítt og breitt um landið. Yfirleitt hæglætisveður af austri og víðast alveg þurrt, þó eru 10 prósenta líkur á að einhverjar síðdegisskúrir verði suðvestan til á landinu.

Yfirleitt verður skýjað með köflum, sýnu bjartast norðan og austan til en einna þungbúnast suðaustan til á landinu. Þó eru vissar horfur á að það þykkni víða upp þegar líður á sunnudaginn og sunnudagskvöldið.

Það er mikill misskilningur sem oft er haldið á lofti að ávallt sé rigning á 17. júní. Því fer raunar fjarri sé tekið mið af síðustu árum. Segja má almennt að undanfarin ár hafi verið góðviðri og bjart mjög víða á landinu og raunar var síðast rigning í höfðuborginni 17. júní 2003.

„Júnímánuður hefur verið afar hlýr það sem af er og eru horfur á ágætum hlýindum áfram og það um allt land. Fari sem horfi getum við verið að upplifa einn hlýjasta júnímánuð sögunnar," segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á fréttastofu Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×