Viðskipti innlent

Ísland fylgir munstri Evrópu

Ísland hefur á undanförnum árum fylgt sama munstri og Evrópa þegar kemur að yfirtökum og samrunum. Þetta er mat Dr. Ralph A. Walkling, prófessors við Drexel-háskóla í Fíladelfíu. Walkling hefur rannsakað yfirtökur og samruna undanfarin þrjátíu ár og er talinn meðal fremstu fræðimanna heims á því sviði.

Walkling segir ástandið í Evrópu um þessar mundir minna um margt á Bandaríkin seint á níunda áratug síðustu aldar. Hann segir að óvinveittum yfirtökum fari fjölgandi í Evrópu, þótt þær séu hvergi nærri eins algengar og þær voru í Bandaríkjunum á þeim tíma. Slíkum yfirtökum hafi hins vegar fækkað mjög á heimsvísu.

„Það eru margar leiðir til að skilgreina velgengni,“ segir Walkling, spurður um hvernig megi skilgreina vel heppnaða yfirtöku. „Til skamms tíma er samruni vel heppnaður ef markaðurinn bregst vel við félaginu sem á að yfirtaka og á hlutlausan hátt gagnvart því sem fer í samrunann. Á heildina litið eru flestir samrunar hagstæðir fyrir hluthafa og fleiri sem hagnast en tapa á þeim.

Algengast er að hluthafar yfirtekinna félaga græði mest á samrunum. Hluthafar þeirra fyrirtækja sem greiða of hátt verð fyrir félög eru hins vegar þeir sem tapa oftast á þessu ferli.“

Walkling er staddur hér á landi í tilefni af íslenska þekkingardeginum sem Félag viðskipta- og hagfræðinga (FVH) stendur fyrir á morgun undir þemanu „Samrunar og yfirtökur“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×