Viðskipti innlent

Tækifæri þrátt fyrir hindranir

Miomir Boljanovic hefur verið búsettur á Íslandi í sex ár. Hann kom hingað árið 2001 ásamt eiginkonu sinni. Þá var uppgangur í tölvuiðnaði á heimsvísu og mikill skortur á hugbúnaðarsérfræðingum. Miomir fékk því fljótt vinnu hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Landmati sem er sérhæft í þróun upplýsingakerfa og var þar í þrjú ár.

Miomir og eiginkona hans hafa komið sér vel fyrir á Íslandi. Hér fæddist þeim dóttir sem í dag er orðin fjögurra ára og talar íslensku til jafns við serbnesku, föðurnum til mikillar gleði. Í dag starfar Miomir hjá leikjalausnafyrirtækinu Betware þar sem hann sinnir hönnun og þróun á hugbúnaði.

Einkavæðingarferli senn að ljúka

„Serbía á enn langt í land á ýmsum sviðum," segir Miomir, sem fylgist vel með gangi mála í sínu heimalandi. Hann telur þarlent efnahagslíf á uppleið en enn skorti á nauðsynlegar samfélagsúrbætur.

Erlendum fjárfestingum í Serbíu hefur fjölgað mjög á undanförnum árum og námu meira en fjórum milljörðum dollara á síðasta ári. Þær hafa að mestu leyti komið til vegna einkavæðingar ríkisfyrirtækja, en það ferli hófst árið 2000 og er ætlað að þeim ljúki á þessu ári.

Miomir segir sölu ríkis-fyrirtækjanna tvímælalaust hafa verið jákvæðar fyrir serbneskt efnahagslíf. Þó þurfi meira til, svo að sú uppbygging sem stefnt er að nái fram að ganga. „Þú selur ríkisfyrirtæki bara einu sinni. Það sem Serbíu skortir er fjárfestingar í nýjum fyrirtækjum. Fjárfestingar sem eru atvinnuskapandi, geta aukið framleiðni landsins og fært landsmönnum áþreifanlegar sannanir um að hlutirnir séu að færast til betri vegar. Í dag er atvinnuleysi í Serbíu gríðarlegt. Það er langstærsta vandamálið sem þjóðin stendur frammi fyrir."

Hlutirnir þokast þó í rétta átt að mati Miomirs. Ríkisstjórnin hafi til dæmis nýlega sett á dagskrá að auka veg smærri og millistórra fyrirtækja, auk þess sem stefnt sé að úrbótum á helstu innviðum landsins.

Serbía á snúið verk fyrir höndum

Að mati Miomirs leynast mikil tækifæri í fjárfestingu í ýmiss konar iðnaði í Serbíu. Þá telur hann að útvistun í tæknigeiranum sé ákjósanlegur kostur, bæði fyrir stærri og smærri fyrirtæki. Margir velmenntaðir hugbúnaðarsérfræðingar búi í landinu en eigi sér litla von um áhugaverða vinnu eins og staðan er núna. Þá sé fasteignaverð og leiga með lægsta móti.

Serbneska ríkisstjórnin á mjög snúið verk fyrir höndum við að laða að erlent fjármagn, segir Miomir, enda ríki enn pólitískur óstöðugleiki í landinu. Þá sé spilling útbreidd og skrifræði mikið. Allt hjálpi þetta því miður til við að fæla alþjóðlega fjárfesta frá landinu. „Margir erlendir fjárfestar hafa frekar kosið nágrannalönd Serbíu vegna óstöðugleikans í landinu. En hlutirnir þokast í rétta átt, kannski ekki eins hratt og maður myndi óska sér, en þetta er að breytast."

strandlengja SvartfjallalandsÁrið 2006 klauf Svartfjallaland sig frá Serbíu með þjóðaratkvæðagreiðslu og hurfu þá síðustu leifar Júgóslavíu. Svartfjallalandi hefur vegnað betur eftir aðskilnaðinn og Miomir segir þar séu fjölmörg tækifæri fyrir erlenda fjárfesta, ekki síst í fasteignakaupum á strandlengju landsins. „Fjöldi ferðamanna hefur verið að aukast hratt á undanförnum árum og búist er við að innan skamms verði hann sá ferðamannastaður sem hraðast vex í Evrópu. Strandlengjan er jafnfalleg og strandlengja Króatíu en fasteignirnar kosta helmingi minna. Þetta bil minnkar þó óðum, svo það er um að gera að bregðast hratt við."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×