Viðskipti innlent

Marel vill borga, Stork ekki

kynningarfundur hjá Mare.l Fjárfestar og starfsmenn greiningardeilda voru meðal þeirra sem sóttu kynningarfund Marels fyrir helgi, en hann var haldinn í tengslum við ársuppgjör félagsins.
kynningarfundur hjá Mare.l Fjárfestar og starfsmenn greiningardeilda voru meðal þeirra sem sóttu kynningarfund Marels fyrir helgi, en hann var haldinn í tengslum við ársuppgjör félagsins. MYND/GVA

Óli Kristján Ármannsson

skrifar

Óformlegar viðræður Marels og Stork-fyrirtækjasamstæðunnar í Hollandi hafa haldið áfram. Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel, greindi frá því á fundi fyrir fjárfesta fyrir helgi að Stork hefði ítrekað áhuga sinn á að kaupa Marel.

Viðræðurnar hafa ekki verið færðar á formlegt plan, enda á stjórn Stork í slag um stefnu við stærstu hluthafa félagsins. Viðskiptadómstóll í Hollandi skipaði í janúar sérstaka tilsjónarmenn sem leiða eiga deiluna til lykta á næstu fimm mánuðum.

Árni Oddur segir að þótt hreyft hafi verið við hugmyndum um að Stork N.V. kaupi Marel horfi dálítið öðruvísi við áhugi Marels á að kaupa Stork Food Systems, sem er matvælavinnsluvélahluti samstæðunnar. „Munurinn á okkur og þeim er að þeir eru ekki tilbúnir að borga fyrir Marel á meðan við erum tilbúnir að borga fyrir Stork,“ segir Árni Oddur og telur 50 prósent yfir núverandi markaðsvirði bréfa Stork ekki of hátt verð fyrir fyrirtækið. Hann segir að samlegðaráhrif starfsemi fyrirtækjanna réttlæti verðið.

Árni Oddur áréttar að gott samstarf Marel og Stork Foods, sem staðið hafi í átta ár haldi áfram og hafi sjaldan verið betra á sölu- og markaðssviði, þótt ef til vill hafi aðeins dregið úr því á sviði rannsókna- og þróunar.

Marel hefur kosið að standa fyrir utan deilur stærstu hluthafanna í Stork, bandarísku fjárfestingasjóðanna Centaurus og Paulson, við stjórn félagsins og benti Árni Oddur á að lítið mál hefði verið að keyra upp einskiptiskostnað félagsins á síðasta ári með því að hella sér í slaginn.

„Sjóðirnir eru hins vegar á fullu í þessu með her lögfræðingar, enda snýst málið orðið um virðingu þeirra og þeir ætla að hafa betur.“ Hann segir hins vegar lausnina á deilunni liggja í augum uppi. „Hún er náttúrlega að selja Stork Foods til Marel og láta rannsóknina sem hafin er niður falla,“ segir hann glaðhlakkalega, en er ekkert mjög bjartsýnn á að sú leið verði farin miðað við þann hnút sem deilan er komin í.

Slagurinn hófst í október þegar samþykkt var á sérstökum hluthafafundi að selja jaðarstarfsemi frá Stork, en þar undir fellur Stork Foods. Stjórn fyrirtækisins hafði álit meirihluta hluthafa að engu. Bandarísku sjóðirnir gerðu þá tilraun til að koma stjórninni frá, en málið endaði á borði viðskiptadómstóls í Amsterdam sem skipaði í janúar sérstaka tilsjónarmenn í stjórn Stork til að leiða deiluna til lykta á hálfu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×