Viðskipti innlent

Hlúa ber vel að auðæfum þjóðarinnar

Eignastýring Kaupþings hefur endurútgefið bókina Lífeyrisbók - handbók fyrir stjórnendur lífeyrissjóða, sem fyrst kom út árið 2003, og ritstýrði Sigurður Kristinn Egilsson, forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta hjá Kaupþingi, verkinu. Hann segir að ritið sé unnið í samstarfi við lífeyrissjóðina en jafnframt hugsað sem ákveðin þjónusta við þá.

„Við viljum koma því á framfæri hversu mikilvæg auðlind lífeyrissjóðirnir eru fyrir íslenskt sam-félag. Kaupþing hefur átt mikið og gott samstarf við lífeyrissjóðina og við viljum gera þeim góð skil," segir Sigurður Kristinn og bætir við að þetta sé fyrst og fremst hugsað sem hlutlaust fræðslurit.

„Innan bankans er mikil þekking á lífeyrissjóðum og menn vilja koma henni á framfæri í rituðu máli. Hjá lífeyrissjóðunum starfar nú mikill fjöldi sérfræðinga sem við eigum í góðu sambandi við."

Gríðarlegir hagsmunir liggja í þessum verðmætum en Sigurður bendir á að hlutfall eigna íslensku lífeyrissjóða sé það hæsta meðal OECD-þjóða og var komið í 120 prósent af landsframleiðslu í árslok 2005. „Það er rík ástæða að hlúa vel að þessum verðmætum og engin ástæða til annars en að ætla að lífeyrissjóðirnir haldi áfram að vaxa," tekur hann fram.

Fyrir áhugamenn um líf-eyrismál

Eins og titill bókarinnar ber með sér er ritið einkum ætlað starfsmönnum og stjórnarmönnum lífeyrissjóða. Markmiðið með ritinu er að mynda sameiginlegan flöt á lífeyrissjóðunum fyrir stjórnendur og starfsmenn lífeyrissjóða og þá sem hafa áhuga á stjórnun lífeyrissjóða og lífeyrismálum. Bókin verður meðal annars notuð til grundvallar á námskeiði sem haldið verður fyrir starfsmenn lífeyrissjóða sem og þá sem hafa áhuga á stjórnun þeirra á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands á vormánuðum.

Í Lífeyrisbókinni er greint frá því hvernig lífeyrissjóðunum er stýrt almennt og hugmyndafræðinni á bak við stjórnun þeirra. Lagalegt umhverfi þeirra er grunnurinn að starfseminni og er greint ítarlega frá því. Ritinu er svo skipt í þrjá meginþætti þar sem fjallað er um rekstur lífeyrissjóða, áhættustýringu og eigna- og skuldastýringu og helstu aðferðum þar að lútandi.

Þá svara stjórnendur líf-eyrissjóða og aðrir hagsmunaaðilar ýmsum spurningum í ritinu er snúa að lífeyrissjóðakerfinu. Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir meðal annars að greiðsluflæði lífeyrissjóðanna muni breytast á komandi áratugum með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og jafnvel verða neikvætt, það er að iðgjöld, fjármagnstekjur og reglulegar afborganir lána munu ekki duga fyrir lífeyrisgreiðslum. Selja þurfi því eignir sem muni leiða til þess að hlutdeild þeirra í sparnaði þjóðarinnar fari minnkandi. Þessa mun þó ekki gæta fyrr en eftir nokkra áratugi.

Þá bendir Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, á að upphaf lífeyriskerfisins megi rekja til kjarasamninga fyrir næstum fjórum áratugum. „Ég leyfi mér að fullyrða að fá atriði í kjarasamningi hafa haft jafn mikil langtíma-áhrif," segir Grétar í bókinni.

Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar Group, kemur inn á þátt lífeyrissjóðanna í útrásinni og segir þá hafa gegnt miklu hlutverki í vexti íslenskra fyrirtækja erlendis á undanförnum árum. Og þá ræðir Stefán Halldórsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóða og telur að sjóðirnir eigi að beita styrk sínum til að stuðla að jákvæðri þróun.

Vaxtanæmni og áhættuálag

Meðal þeirra atriða sem er fjallað um í Lífeyrisbókinni er samspil eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Þar er vakin athygli á vaxtanæmni skuldbindinga og bent á þá áhættu sem fylgi breyttu vaxtastigi. Í tryggingafræðilegri úttekt eru notaðir 3,5 prósenta raunvextir við að núvirða eignir og skuldbindingar og miðað við þá ávöxtunarkröfu er almennt jafnvægi milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða í dag.

Sigurður bendir á að ef notaðir væru aðrir vextir, til dæmis 2,5 prósenta, þá myndi skapast ójafnvægi þar sem líftími skuldbindinga lífeyrissjóða er almennt töluvert lengri en líftími eigna. Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða myndi þá versna um 20 prósent miðað við óbreyttar forsendur. „Ef vextir fara að lækka á Íslandi, sem gæti til dæmis gerst með upptöku evrunnar, þá þyrfti eflaust að nota aðra prósentu en 3,5 prósent við núvirðingu eigna og skuldbindinga sem gæti haft töluverð neikvæð áhrif á réttindi sjóðfélaga." Ef notuð er hærri tala en 3,5 prósent þá mætti hins vegar búast við réttindaaukningu að sögn Sigurðar.

„Aðalatriðið er að þessi áhætta sé uppi á borðinu og tekið sé tillit til hennar. Þannig eru til dæmis óuppgreiðanleg verðtryggð löng skuldabréf hentugur fjárfestingakostur fyrir lífeyrissjóði til að minnka þessa áhættu. Þannig geta lífeyrissjóðir stýrt þessari áhættu að einhverju leyti."

Í bókinni er kafli um áhættustýringu þar sem fjallað er um nýja aðferðafræði í þeim efnum. „Þetta er aðferð til að meta áhættuálag hvers lífeyris-sjóðs og hún er metin út frá líkunum á því að sjóðir geti staðið við skuldbindingar sínar. Ef lífeyrissjóður ætti bréf sem eru nákvæmlega eins og skuldbindingarnar þá væri áhættuálagið núll. En ef hann ætti hundrað prósent í hlutabréfum þá er áhættuálagið meira því við vitum ekki hvernig verð hlutabréfa þróast."

Fyrirmynd annarra ríkja

Íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur vakið athygli víða erlendis og horfa margir á það hálfgerðum öfundaraugum, enda er ljóst að mörg erlend lífeyriskerfi eru í raun og veru gjaldþrota. Íslenska kerfið hefur vaxið hratt og styrkst til mikilla muna á undanförnum árum.

Sigurður segir að erlendis horfi menn til þátta eins og kerfis samtryggingar og séreignar og bendir á að í inngangsskrifum Zvi Bodie, virts fræðimanns á sviði lífeyrismála, er vakin athygli á verðtryggingunni sem er mjög til umræðu þessa dagana. „Hann nefnir hana sem nýstárlega aðferð við fjármögnun lífeyris. Þá er hugsunin sú að þegar ungir einstaklingar kaupa sér íbúð þá taka þeir verðtryggð lán. Þessir einstaklingar fara inn á vinnumarkaðinn og borga í lífeyrissjóði sem eru í raun og veru að fjármagna íbúðakaupin með því að kaupa verðtryggð íbúðarbréf á markaði. Sjóðirnir ávaxta peninga sjóðsfélaga, meðal annars með þessum verðryggðu íbúðarbréfum, til að greiða þeim síðar út verðtryggðan lífeyri." Zvi Bodie skilgreinir þetta sem lokaða hringrás þótt nú sé kominn ákveðinn leki í hana þar sem erlendir aðilar eru farnir að kaupa þessi verðtryggðu bréf.

„Það að virtustu fræðimenn heims á sviði lífeyrismála vitni í íslenska lífeyriskerfið sem ákveðna fyrirmynd gefur íslenska kerfinu góðan vitnisburð," segir Sigurður Kristinn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×