Viðskipti innlent

Bakarar laskaðir eftir bolludaginn

bakarar berja á bolludeiginu í suðurveri. Bakararnir í Bakarameistaranum unnu í allt að átján klukkutíma til að gleðja viðskiptavini sína með 50.000 bollum fyrir bolludaginn á mánudag.
bakarar berja á bolludeiginu í suðurveri. Bakararnir í Bakarameistaranum unnu í allt að átján klukkutíma til að gleðja viðskiptavini sína með 50.000 bollum fyrir bolludaginn á mánudag. MYND/GVA

„Menn eru aðeins laskaðir. Við erum búnir að vaka mikið og sofa lítið,“ segir Óttar Bjarki Sveinsson bakarameistari um félaga sína í Bakarameistaranum í Suðurveri að loknum bolludegi á mánudag. Bakararnir unnu sleitulítið að framleiðslunni og bjuggu til um 50.000 bollur. Enginn leið er að reikna út hversu mörgum bollum landinn torgaði en Óttar segist hafa heyrt að um milljón bollur hafi horfið ofan í maga fólks.

Bjarki var dasaður eftir stranga törn. „Þetta er smáskot yfir eina helgin og nær toppinum rétt fyrir bolludaginn,“ segir Óttar en hann stóð vaktina ásamt félögum sínum kvölds og morgna helgina fyrir bolludag til að anna eftirspurnarsprengingunni á mánudag. Mesta álagið var á sunnudag en þá stóðu bakararnir vaktina frá klukkan 23 á sunnudagskvöld og unnu þeir sleitulítið til klukkan 17 á mánudag.

Bakararnir bjuggu til um 50.000 bollur sem fóru í sölu jafnt í Suðurveri sem og í öðrum bakaríum undir merkjum Bakarameistarans auk þess sem bollurnar fóru í sölu í sex verslunum víðs vegar um borgina. Þá keyptu fyrirtæki og stofnanir bollur fyrir starfmenn sína.

Bakaríið í Suðurveri opnaði líkt og alla daga klukkan hálf sjö á mánudagsmorgun og lokaði klukkan 18. Að sögn Óttars var fullt út úr dyrum allan tímann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×