Viðskipti innlent

Verðmæti sjö félaga yfir 200 milljörðum

Þegar markaðsvirði Straums-Burðaráss fór yfir 200 milljarða króna í vikunni eru sjö Kauphallarfélög í fyrsta skipti metin á 200 milljarða króna eða meira. Auk Straums eru þetta Kaupþing, Glitnir, Landsbankinn, Exista, FL Group og Actavis. Aðeins Actavis flokkast utan þess að vera skilgreint sem fjármála- eða fjárfestingafélag.

Þá hefur það gerst í fyrsta skipti að fjögur fyrirtæki eru komin yfir 300 milljarða króna að markaðsvirði eftir að Exista fór yfir 300 milljarða múrinn í vikunni.

Frá áramótum hefur Úrvalsvísitalan hækkað um fjórtán prósent, en það eru fyrst og fremst fjármálafyrirtæki og fjárfestingafélög sem hafa dregið vagninn. Exista, FL Group og Landsbankinn hafa öll hækkað um meira en fimmtung í virði það sem af er ári. Hækkun á gengi stærstu félaganna hefur því valdið mikilli verðmætaaukningu stærstu fyrirtækjanna.

Langverðmætasta fyrirtækið í Kauphöll Íslands er Kaupþing sem metið var á 729 milljarða í gær. Bankinn er nærri tvöfalt verðmætari en næsta félög í röðinni sem er Glitnir, metinn á 379 milljarða króna.

Til marks um þann vöxt sem hefur orðið á íslensku stórfyrirtækjunum á skömmum tíma þá var Pharmaco, forveri Actavis, verðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni fyrir tæpum fjórum árum. Markaðsvirðið var þá rétt undir fimmtíu milljörðum króna.

Kaupþing varð fyrsta fyrirtækið til að rjúfa 200 milljarða múrinn en það gerðist eftir að bankinn eignaðist FIH í Danmörku um mitt ár 2004. -






Fleiri fréttir

Sjá meira


×