Viðskipti innlent

Segja verðmæti Símans aukast

Frá undirritun kaupsamnings á Símanum í Þjóðmenningarhúsinu Kaupendur telja sig hafa náð að auka virði Símans sem verður skráður á markað á þessu ári.
Frá undirritun kaupsamnings á Símanum í Þjóðmenningarhúsinu Kaupendur telja sig hafa náð að auka virði Símans sem verður skráður á markað á þessu ári.

Eigendur Símans horfa á 25 prósenta arðsemi eigin fjár á hverju ári sem gæti gefið sautján milljarða króna í hagnað við skráningu félagsins síðar á þessu ári.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, segir að það kæmi honum á óvart ef ekki yrði talsverð verðmætaaukning í reikningum félagsins við skráningu Símans. Exista er með 43,6 prósenta hlut í Símanum sem er bókfærður á 13,5 milljarða króna.

Stefnt er að því að skrá Símann fyrir árslok 2007, samkvæmt kaupsamningi við íslenska ríkið sem undirritaður var í júlí 2005, en nákvæm tímasetning liggur ekki enn fyrir. Núverandi eigendur Símans keyptu félagið í skuldsettum kaupum upp á 66,7 milljarða króna.

Lýður segir að markmið Exista, sem stærsta eigandans í Símanum, séu þau að ná 25 prósent arðsemi á það eigið fé sem lagt var til fjárfestingarinnar. „Ég yrði mjög hissa ef við næðum því ekki á þessum tíma að minnsta kosti, og þá á ég við árlega ávöxtun.“

Auk Exista eiga Kaupþing, MP Fjárfestingabanki og stórir lífeyrissjóðir Símann að langstærstum hluta. Miðað við bókfærðan hlut Exista í Símanum má ætla að kaupendur geti hagnast um sautján milljarða króna við skráninguna, miðað við bókfært kaupverð og arðsemismarkmið. Exista gæti þar af hagnast um átta milljarða.

Á árinu 2006 tapaði Síminn 3,6 milljörðum króna sem rakið er til neikvæðra fjármagnsliða, einkum mikils gengistaps af erlendum lánum upp á tæpa 5,8 milljarða króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 8,443 milljónir króna og jókst um 13,3 prósent á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×