Viðskipti innlent

Hagnaður SpKef fjórfaldast

Metafkoma varð á rekstri Sparisjóðsins í Keflavík (SpKef) á síðasta ári. Hagnaður nam 4.687 milljónum króna og jókst um 308 prósent á milli ára. Arðsemi eigin fjár var 124,5 prósent.

Þetta er meiri hagnaður en sem nam eigin fé sparisjóðsins í árslok 2005, sem var 3.765 milljónir króna og hafði byggst upp á tæpri öld. Það er nú komið í 9.272 milljónir en aukning stofnfjár á síðasta ári kemur þar einnig til hækkunar.

Hreinar rekstrartekjur námu 7.258 milljónum króna og jukust um 174 prósent frá fyrra ári. Hreinar vaxtatekjur voru 645 milljónir sem var meira en fjórðungssamdráttur. Hins vegar skiluðu aðrar rekstrartekjur 6.613 milljónum króna, þar af var gengishagnaður rúmir fimm milljarðar króna og jókst um 289 prósent. SpKef á bæði beint og óbeint rúmlega þriggja prósenta hlut í fjármálaþjónustufyrirtækinu Existu, sem fór á markað haustið 2006, og myndaðist þá mikill gengishagnaður.

Rekstrargjöld voru 1.258 milljónir samanborið við 925 milljónir árið áður sem gefur 36 prósenta aukningu. Kostnaðarhlutfall var ekki nema 17,3 prósent árið 2006 á móti 35 prósentum árið 2005.

Heildareignir SpKef voru tæpir 48 milljarðar króna í lok árs og höfðu hækkað um 51 prósent. Eiginfjárhlutfall (CAD) nam 14,17 prósentum á móti 12,42 prósentum í árslok 2005.

Sparisjóðurinn boðar nýtt stofnfjárútboð í mars-apríl þar sem stofnfé fyrir 700 milljónir króna að nafnvirði verður selt til stofnfjáreigenda.

Stjórnendur sparisjóðsins búast við góðri afkomu á árinu, þó ekki eins góðri og í fyrra. Árið fer þó vel af stað og má þar benda á hækkun á bréfum í Existu frá áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×