Viðskipti innlent

Hagnaður Icebank fór yfir 5,6 milljarða

Icebank, sérhæfður viðskiptabanki í eigu sparisjóðanna, skilaði 5.662 milljóna króna hagnaði í fyrra, sem er besta afkoma í sögu bankans, og jókst hagnaður um 138 prósent á milli ára. Var arðsemi eigin fjár 63,8 prósent samanborið við 54,3 prósent árið áður.

Hreinar rekstrartekjur voru 7.820 milljónir og ríflega tvöföldust frá 2005. Hreinar vaxtatekjur hækkuðu um 52 prósent og námu 1.254 milljónum.

Mesta aukningin varð á öðrum rekstrartekjum sem hækkuðu úr 2,8 milljörðum króna í 6,4 milljarða. Veruleg hækkun varð á 4,6 prósenta eignarhlut Icebank í Existu þegar síðarnefnda félagið var sett á markað. Á bankinn nú 3,45 prósenta hlut sem metinn var á 8,4 milljarða í árslok.

Rekstrargjöld voru um einn milljarður og jukust um fjörutíu prósent.

Tæplega þriðjungsaukning varð á eignum bankans á síðasta ári og námu þær 86,9 milljörðum í árslok. Eigið fé var tólf milljarðar króna og meira en tvöfaldaðist.

Eiginfjárhlutfall (CAD) var 17 prósent í árslok sem gefur bankanum svigrúm til að fylgja eftir nýrri framtíðarsýn sem snýr meðal annars að auknum gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum, aukinni áherslu á langtímalán og þátttöku í fjárfestingum og lánaverkefnum erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×