Viðskipti innlent

Virði CCP allt að sexfaldast á einu ári

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar

Bandarískur fjárfestingasjóður, General Catalyst Partners, vill auka við fimmtán prósenta hlut sinn í netleikjafyrirtækinu CCP og býður nú 1.000 krónur fyrir hlutinn. Sjóðurinn keypti núverandi eignarhlut sinn á genginu 600-800 á síðasta ári. Markaðsvirði CCP, sem gæti legið nálægt tíu milljörðum króna, hefur því nærri sexfaldast á einu ári því samkvæmt heimildum Markaðarins eru aðrir kaupendur jafnvel tilbúnir að greiða meira en þúsund krónur fyrir hlutinn í CCP.

Þessi mikla verðmætaaukning er skiljanleg í ljósi þess að CCP braust úr því á síðasta ári að vera sprotafyrirtæki í fullskapað fyrirtæki sem skilar miklum hagnaði. Eins og kom fram á síðum Fréttablaðsins á sínum tíma hagnaðist CCP um 370 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2006 og velti 1,3 milljörðum króna. Til samanburðar var velta félagsins, sem framleiðir fjölþátttökuleikinn EVE-online, 700 milljónir króna árið 2005 og lítils háttar hagnaður.

Fáir hafa hagnast meira á uppgangi CCP en Novator, alþjóðlegt fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem er stærsti hluthafinn með 38 prósenta hlut. Novator fjárfesti í CCP fyrir tæpu ári síðan og greiddi 180 krónur fyrir hlutinn samkvæmt upplýsingum Markaðarins. Miðað við gengið 1.000 krónur á hlut hefur virði eignarhlutar Novators aukist um 455 prósent á tæpu ári. Seljandi bréfanna var Brú Venture Capital, dótturfélag Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka, en Björgólfur Thor er stjórnarformaður Straums.

Heimildir Markaðarins herma að viðskipti Brúar og Novators hafi farið fram á markaðsgengi þess tíma, en hafa ber í huga að sökum þess að CCP er óskráð fyrirtæki er verðmyndun bréfanna ekki skilvirk. Brú, sem fékk bréfin í arf frá Íslenska hugbúnaðarsjóðnum sem Straumur tók yfir árið 2003, innleysti umtalsverðan hagnað við söluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×