Viðskipti innlent

Economist ódýrt hérlendis

Á sama tíma og tímaritið Economist segir að íslenska krónan sé ofmetnasti gjaldmiðill í heimi, samkvæmt Big Mac-vísitölunni, er það nær hvergi ódýrara í lausasölu en einmitt hér á landi.

Þetta víðlesna tímarit um efnahags- og þjóðfélagsmál kostar 400 krónur út úr búð á Íslandi, en af þeim fjörutíu löndum sem gefin eru upp á forsíðu tímaritsins er tímaritið aðeins ódýrara í Nígeríu (253 kr.), Tyrklandi (322 kr.) og Suður-Afríku (340 kr.), miðað við gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum á mánudaginn.

„Þeir stýra verðinu sjálfir, borga undir blaðið og leggja mikið upp úr því að blaðið sé fáanlegt alls staðar í heiminum,“ segir Trausti Júlíusson, dreifingarstjóri tímarita og blaða hjá Dreifingamiðstöðinni. Hann bætir við að verðbreytingar eru þó jafnan gerðar í samráði við dreifingaraðila.

Trausti hefur tekið eftir því að lausasöluverðið á Íslandi er lægra en víðast annars staðar en hefur ekki svör á reiðum höndum af hverju svo sé. Stundum er jafnvel meiri munur á aukablöðum Economist. Trausti segir að tímaritið hafi alltaf selst vel á Íslandi.

Í Slóveníu, þar sem lausasöluverð Economist er lægst í Evrópu á eftir Tyrklandi og Íslandi, kostaði tímaritið 441 krónu miðað við gengi íslensku krónunnar og evrunnar á mánudaginn. Þarna munar rúmum tíu prósentum.

Í Evrulandi kostaði Economist 5,2 evrur í lausasölu (nema í Slóveníu), um 468 krónur, tæpar fimm hundruð krónur í Svíþjóð og 543 krónur í Danmörku. Dýrast er Economist í Mið-Austurlöndum. Í Kúveit kostaði stykkið 603 krónur út úr búð á mánudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×